Tyrkir hafa fallið frá því að standa í vegi fyrir aðild Finnlands og Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu. Það var tilkynnt í dag en fulltrúar ríkja bandalagsins hittust í Madríd í dag og á morgun hefjast fundarhöld leiðtoga NATO ríkjanna. Það þýðir að ekkert stendur lengur í vegi fyrir inngöngu ríkjanna í bandalagið.

Á vef BBC segir að Tyrkland hafi samþykkt umsóknir bæði Svía og Finna og að það hafi tekist eftir að löndin þrjú undirrituðu samkomulag um að auka stuðning vegna ógnar við öryggi hvers lands.

Haft er eftir forsætisráðherra Svíþjóðar, Magdalendu Andersson, á sænska vefnum SVT, að löndin hafi þrjú komist að samkomulagi og að í kjölfarið fái Svíþjóð formlega stöðu ríkis sem hefur verið boðið að vera í Atlantshafsbandalaginu. Hún sagði fundinn hafa verið langan en að það hafi tekist að lokum að ná samkomulagi.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sagði á fundi eftir að samkomulagið var undirritað að í samkomulaginu hafi verið tekið á áhyggjum Tyrkja um innflutning á vopnum og baráttu þeirra gegn hryðjuverkum.

Sóttu um í maí

Finnland og Svíþjóð sóttu formlega um aðild að Atlantshafsbandalaginu (NATO) í maí á þessu ári. Á vef SVT segir að innganga ríkjanna verði rædd frekar í Brussel í næstu viku.