Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands, segir Finna þurfa að aflétta vopnasölubanni á Tyrkland ef Tyrkir styðji aðild Finna að NATO.

Tyrkneski ráðherrann lét ummælin falla í tengslum við væntanlega heimsókn Antti Kaikkonen, varnarmálaráðherra Finnlands.

Bæði Svíþjóð og Finnland lögðu bann við sölu á vopnum til Tyrklands 2019 í kjölfar aðgerða Tyrklands gegn Kúrdum í Sýrlandi.

„Við höfum ekki enn heyrt neinar yfirlýsingar frá Finnum um að þeir muni aflétta vopnasölubanni sínu á okkur,“ segir Cavusoglu.

Svíar og Finnar hafa sótt um aðild að NATO en Tyrkir tefja og saka löndin um að hunsa ógnanir í garð Tyrkja. Þeir vilji meiri þrýsting frá Svíum og Finnum á kúrdíska og aðra vígahópa sem Tyrkland skilgreinir sem hryðjuverkamenn.