Tyrkir hafa sam­þykkt vopna­hlé í norður­hluta Sýr­lands svo her­lið Kúrda geti dregið sig frá. Vara­for­seti Banda­ríkjanna, Mike Pence, til­kynnti það í kjöl­far fundar hans með for­seta Tyrk­lands, Recep Tayyip Erdogan, í Ankara fyrr í dag.

Lát verður á á­tökum, samkvæmt samkomulagi, í alls fimm daga og munu Banda­ríkin að­stoða við að koma á „skipu­legri hörfun“ her­liðs Kúrda frá því svæði sem Tyrkir hafa skil­greint sem „öruggt svæði“ við landa­mærin.

Inn­rás Tyrkja hófst í síðustu viku í kjöl­far þess að Banda­ríkja­for­seti, Donald Trump, til­kynnti að her­lið landsins myndu hverfa frá landa­mærum Tyrk­lands og Sýr­lands. Yfir­lýstur til­gangur inn­rásarinnar var að hrekja á brott her­lið Kúrda sem yfir­völd í Ankara telja hryðju­verka­sam­tök. Þá var einnig ætlum þeirra að koma tveimur milljónum sýr­lenskra flótta­manna, sem eru í Tyrk­landi, á ný svæði.

Pence fundaði með Erdogan í vikunni.
Fréttablaðið/Getty

Fjöl­margir hafa gagn­rýnt inn­rásina og talið hana geta leitt til þjóðar­morðs meðal Kúrda.

For­seti Banda­ríkjanna tísti um vopna­hléið áður en Pence til­kynnti um það og sagði að milljónum hefði nú verið borgið. Í til­kynningu sinni þakkaði Pence Trump fyrir sterka leið­toga­hæfni hans.

„Hann vildi vopna­hlé. Hann vildi stöðva of­beldið,“ sagði Pence í yfir­lýsingu sinni.

Utan­ríkis­ráð­herra Tyrk­lands, Mevlut Cavu­soglu, greindi blaða­mönnum frá því að inn­rásin yrði ekki alveg stöðvuð fyrr en her­lið Kúrda hafi al­ger­lega yfir­gefið svæðið.

Greint er frá á BBC.