Vonir Finnlands og Svíþjóðar um að fá fullgilda aðild að Atlantshafsbandalaginu á næsta fundi aðildarríkja virðast orðnar að engu, en fundurinn fer fram næsta miðvikudag, 29. júní. Tyrkland er enn mótfallið inngöngu ríkjanna tveggja og óljóst er hvenær eða hvort afstaða þeirra til aðildarviðræðna mun breytast.

Viðræður milli annars vegar umsóknarríkjanna tveggja og Tyrklands hins vegar, sem er andsnúið aðildinni, hófust þann 20. júní í Brussel að frumkvæði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO. Þar var ætlunin að sætta sjónarmið Finnlands, Svíþjóðar og Tyrklands en þjóðunum hefur orðið lítið ágengt í viðræðum sínum.

Helsta andstaða gegn inngöngu Svía og Finna í NATO kemur frá Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta. Erdogan hefur lýst því yfir að vilji Svíar og Finnar fá vilyrði Tyrklands fyrir inngöngu verði löndin að ganga að kröfum hans.

Fréttablaðið/Graphic News

Helstu kröfur Tyrklands eru að bæði löndin breyti hryðjuverkalögum sínum, framselji meðlimi Verkamannaflokks Kúrda (PKK), sem fengið hafa pólitískt skjól, og stöðvi vopnaviðskiptabönn sem hafa verið í gildi síðan Tyrkland beitti sér í Sýrlandsstríðinu árið 2019.

Upprunalega gáfu öll 30 aðildarríki NATO vilyrði sitt fyrir inngöngu landanna. Þar á meðal Tyrkland, en forseti Finnlands, Sauli Niinisto, sagði að Erdogan sjálfur hefði lýst yfir ánægju sinni með umsóknina.

Finnland, sem deilir 1.340 kílómetrum af landamærum með Rússlandi, er sérstaklega í mun að umsókn þeirra verði tekin fyrir.

Ibrahim Kalin, talsmaður forseta Tyrklands, hefur gefið í skyn að mögulega þurfi að bíða að minnsta kosti í eitt ár áður en viðræður geta hafist á ný.

Þetta er talið tengt því að kosningar fara fram í Tyrklandi í júní 2023 en vinsældir Erdogan Tyrklandsforseta hafa minnkað mikið. Málefni Kúrda eru fyrirferðarmikil í umræðu landsins og mótstaða gegn þeim mikil og því auðséð að Erdogan mun nýta tækifærið til að sækja fylgi úr þessum málaflokki.

Tyrkland hefur ekki sett nein sérstök tímatakmörk hvað viðræður varðar, enda liggi ekki á að löndin tvö verði tekin inn sem aðildarríki NATO. Þetta hefur þó vakið hörð viðbrögð aðildarríkja, sem saka Erdogan um að nýta sér aðstöðu sína til að koma sínum eigin málefnum fram.