Tuttugu manns hafa nú verið á­kærðir í Tyrk­landi vegna morðsins á Jamal Khas­hoggi, blaða­manni Was­hington Post, en Khas­hoggi var myrtur og lík hans sundur­bútað eftir að hann gekk inn á ræðis­manns­skrif­stofu Sádi-Araba í Istanbúl í októ­ber 2018. Dóm­stóll í Sádi-Arabíu dæmdi síðast­liðinn desember fimm manns til dauða, og þrjá aðra í 24 ára fangelsi, vegna málsins.

Að því er kemur fram í frétt BBC um málið hafa sak­sóknarar á­kært Ah­med al-Asiri, sem var hátt­settur maður innan hersins áður en að hann var rekinn í tengslum við málið, og Saud al-Qa­htani, einn æðsta ráð­gjafa krón­prins Sádi-Arabíu, fyrir að efna til morðsins. Margir telja að krón­prinsinn, Mohammed bin Sal­man, hafi skipað fyrir um morðið en hann hefur á­valt neitað því.

Auk þeirra eru á­tján aðrir á­kærðir í tengslum við morðið, til að mynda leyni­þjónustu­menn, liðs­menn öryggis­sveita og réttar­meinar­fræðingur, en á­kærurnar eru byggðar á vitnis­burðum, gögnum Khas­hoggi og upp­lýsingum um fólk sem fór í gegnum Tyrk­land. Sádi-Arabísk yfir­völd hafa ekki enn sem komið er tjáð sig um á­kærurnar.

Hinn 59 ára gamli Kas­hoggi hafði verið harður gagn­rýnandi yfir­valda í Sádi-Arabíu og er talið að hann hafi verið myrtur vegna þess. Hann gekk inn á ræðis­manns­skrif­stofuna 2. októ­ber 2018 til að ganga frá skilnaðar­pappírum. Ekkert spurðist til Khas­hoggi eftir að hann gekk inn á skrif­stofuna og vildi enginn kannast við hvað varð um hann.

Síðar meir komst nefnd sem sá um skýrslu Sam­einuðu þjóðanna um morðið að þeirri niður­stöðu að hann hafi verið myrtur sama dag og hann kom á skrif­stofuna. Þá væri það ekki úti­lokað að konungs­veldi Sádi-Araba hafi verið kunnugt um morðið.

Hljóð­upp­tökur bentu til þess að hann hafi látist af völdum lyfja sem hann var sprautaður með auk þess sem hann var kyrktur. Þá hafi lík hans verið bútað í sundur en líkams­leifar Khas­hoggi hafa ekki enn fundist.

Jamal Khashoggi sást síðast þegar hann gekk inn á ræðisskrifstofu Sádi-Araba í Istanbúl 2. október 2018.
Fréttablaðið/AFP