Ákvörðun Donalds Trump Bandaríkjaforseta um að draga um þúsund hermenn Bandaríkjanna út úr Sýrlandi var harðlega gagnrýnd í gær bæði af pólitískum andstæðingum sem og samherjum forsetans. Ákvörðunin gerir Tyrkjum kleift að herja á sýrlenska Kúrda.

Miklar líkur eru því á að Tyrkir ráðist inn í Sýrland norðanvert innan skamms. Hvíta húsið sagði þetta í tilkynningu eftir símtal á milli Trumps og Receps Tayyip Erdogan, forseta Tyrklands. Jafnframt var greint frá því að Bandaríkin muni hvorki taka þátt í innrás Tyrkja né styðja hana, en heldur ekki setja sig upp á móti slíkum aðgerðum. Bandarískar hersveitir í norðanverðu Sýrlandi muni á næstunni halda sig fjarri tyrknesku landamærunum.

Þetta er grundvallarbreyting á afstöðu Bandaríkjastjórnar. Hugmyndir Tyrkja um innrás í Norður-Sýrland hafa lengi verið bitbein þessara bandalagsþjóða og Bandaríkjastjórn lagst alfarið gegn henni. Þangað til nú.

Kúrdar í Sýrlandi og bandamenn þeirra í Sýrlenska lýðræðishernum (SDF) gegndu lykilhlutverki í baráttu Bandaríkjamanna og annarra ríkja gegn hryðjuverkasamtökunum Íslamska ríkinu. Eftir að Íslamska ríkið virðist hafa verið yfirbugað hafa Tyrkir í auknum mæli talað um að ráðast gegn sveitum Kúrda sem þeir segja hryðjuverkasamtök.

Á undanförnum árum hafa Tyrkir tvisvar farið með her inn í Sýrland og meðal annars lögðu þeir undir sig Afrin, svæði Kúrda í norðvesturhluta landsins.

Fyrir lá samkomulag milli Bandaríkjanna og Tyrkja um hlutlaust svæði í norðurhluta Sýrlands en deilur hafa verið um stærð svæðisins eða hversu lengi það verði hlutlaust. Sýrlensk stjórnvöld hafa hins vegar hafnað öllum slíkum áformum því að þau gangi gegn fullveldi landsins.

Sú ákvörðun Trumps að flytja bandaríska herliðið frá norðausturhluta landsins og verja ekki lengur dygga bandamenn hefur mætt mjög harðri andstöðu. Þar á meðal hafa ýmsir helstu bandamenn forsetans á þingi fordæmt ákvörðunina. Tryggja verði velferð kúrdískra hersveita og halda Tyrkjum í skefjum.

Lyndsey Graham, formaður dómsmálanefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings, dyggur bandamaður Trumps, segir ákvörðun forsetans bera vott um skammsýni og ábyrgðarleysi og sverta heiður Bandaríkjanna. Hún verði vatn á myllu öfgasinnaðra íslamista í Sýrlandi. Enn eigi eftir að ganga milli bols og höfuðs á vígasveitum Íslamska ríkisins. Graham ætlar að beita sér fyrir því á þingi að ákvörðun forsetans verði afturkölluð.