Ein vika er nú frá því að síðast sást til þeirra John Snorra, Mu­hammad Ali Sadpara og Juan Pablo Mohr á K2 í Pakistan. Mikil leit hefur farið fram úr lofti og í dag og í gær voru fram­kvæmdar svo­kallaðar FLIR-leitir úr lofti en þá er notast við infra­rauðan radar við leit. Fyrsta slíka leitin fór fram í gær og í dag, klukkan 11.30 að staðar­tíma, hefst önnur slík leit.

Frá þessu er greint á Twitter-síðu pakistanska varnar­mála­ráð­herrans, Mu­hammad Ali Rand­hawa. Þar segir að veður sé fínt í dag þó að nokkur ský séu á himni. Hann segir einnig frá því að gögn, eða myndir, frá geim­vísinda­stofnunum Ís­lands og Síle en að engar öruggar vís­bendingar hafi verið hægt að fá úr þeim.

Halda áfram næstu 60 daga

Í gær á­kváðu yfir­völd í Pakistan að leitin að John Snorra og sam­ferða­mönnum hans muni halda á­fram næstu 60 daga. Með hverjum deginum sem líður minnka líkurnar á því að þeir finnist á lífi.

Á Face­book-síðunni K2 fjallsins segir að pakistanski herinn leiti í 8.600 metra hæð í dag og taki upp frá öllum hliðum.

‏سرچ ریسکیو آپریشن شروع پاک فضائیہ کا جدید ٹیکنالوجی سے لیس خصوصی طیارہ کےٹو پر 8 ہزار 6 سو 11 میٹر سے اوپر پروازیں کریں...

Posted by K2-The Mountain on Friday, 12 February 2021

Ekki búin að gefast upp

Lína Móey, eigin­kona John Snorra, sagði á Face­book-síðu sinni fyrr í vikunni að hún biði enn eftir krafta­verki. Að búðirnar hans Johns standi til morguns og að enn sé von.