Ferða­maðurinn sem týndist við Þing­valla­vatn um liðna helgi hefur verið nafn­greindur en hann heitir Björn Debecker og er 41 árs gamall, að því er fram kemur í um­fjöllun belgíska miðilsins Sudin­fo.

Eins og Frétta­blaðið hefur greint frá er ó­víst um fram­hald að leit mannsins. Lög­regla telja yfir­gnæfandi líkur á því að Björn hafi fallið út­byrðis af kajak sínum á Þing­valla­vatni um helgina en and­lát hans hefur ekki verið form­lega stað­fest.

Í um­fjöllun belgíska miðilsins kemur fram að Björn sé tveggja barna faðir og verk­fræðingur að mennt. Hann hafi verið á ferð ein­samall um Ís­land og dvalið við norðan­vert vatnið nóttina áður en hann hvarf.

Honum er lýst sem miklum ferða­á­huga­manni sem hafi marg­sinnis ferðast einn í slíkum að­stæðum. Hann hafi raunar ferðast til rúm­lega fimm­tíu landa og meðal annars búið í Noregi um hríð.

Er meðal annars tekið fram að hann hafi dvalið ná­lægt jöklum í Alaska, farið í köfunar­ferðir til Víet­nam auk þess sem hann hafi farið í skíða­ferðir í Alpanna og Vos­ges fjöll í Frakk­landi.