„Við vorum ekki búin að sjá það fyrir að fólk héldi að hjólin væru týnd,“ segir Ægir Þorsteinsson, einn eigenda rafskútuleigunnar Hopp sem hóf starfsemi um helgina. Í Fésbókarhóp íbúa í Vesturbæ hafa birst færslur þar sem auglýst er eftir eigendum hjóla sem skilin hafa verið eftir á götuhornum. „Ég vona að fólk verði fljótt að átta sig á því að það er enginn að leita að þeim.“

Leigan opnaði á föstudaginn og segir Ægir viðtökurnar hafa verið framar vonum. „Við erum bara með sextíu hjól nú til að byrja með, það eru strax komnar beiðnir um að stækka svæðið.“ Engar rafskútur voru í umferð að næturlagi þar sem þær voru orðnar batteríslausar.

Nokkur umræða hefur skapast um hvað skuli kalla þessi tæki. Ægir notar orðið rafskúta, sumir nota rafmagnshlaupahjól. Egill Helgason fjölmiðlamaður, stingur upp á orðinu rafskotta.

Strax hefur eitt atvik átt sér stað tengdum rafskútum.

„Það var eitt atvik um helgina þar sem einstaklingur grunaður um ölvun ók á gangandi vegfaranda. Þessi notkun er á móti umferðarlögum og þjónustuskilmálum okkar, en það kemur skýrt fram í appinu,“ segir Ægir.

Rafskútuleigan virkar þannig að hjólin eru skilin eftir nánast hvar sem er innan notkunarsvæðisins, þá getur næsti notandi séð hvar rafskútu er að finna í gegnum app.

Víða er­lendis hefur það verið reynslan að fólk hafi skilið rafs­kúturnar eftir þannig að þær séu í vegi fyrir öðrum veg­far­endum. Honum hafi verið mikið í mun um að koma í veg fyrir það og því bætt einu skrefi við ferlið þar sem tekin er mynd af þeirri stað­setningu sem hjólið er skilið eftir á.

„Það hefur verið vandamál úti að fólk er að leggja þessu út um allt og þetta er fyrir vegfarendum sem gerir fólk pirrað eðlilega, með þessu erum við að sporna gegn því,“ segir Ægir.

Varðandi hjálmanotkun þá eru rafskúturnar flokkaðar eins og reiðhjól, ekkert aldurstakmark er á að aka rafskútu og einstaklingar yfir 16 ára þurfa ekki að vera með hjálm. Aðeins einstaklingar yfir 18 ára mega leigja af Hopp. „Við viljum ekki stunda viðskipti við þá sem eru ekki orðnir sjálfráða,“ segir Ægir.