Aðgangi Donald Trump, forseta Bandaríkjanna hefur lokað varanlega. Twitter birti tilkynningu þess efnis seint á föstudagskvöld. Í yfirlýsingunni segir að eftir nákvæma skoðun á tístum frá aðganginum @realDonaldTrump, samhengi þeirra og ekki síst hvernig þau hafi verið túlkuð bæði á Twitter og annarsstaðar, hafi verið ákveðið að "loka síðunni varanlega vegna hættu á frekari hvatnigar til ofbeldisverka."

Fram kemur að í kjölfar hinna hræðilegu atburða í vikunni hafi Twitter tekið skýrt fram að frekri brot á reglum samskiptamiðilsins gæti leitt til þessa. Twitter hafi lagt áherslu á að almenningur gæti heyrt frá kjörnum fulltrúum og þjóðaleiðtogum beint. Sú áhersla byggi á mikilvægi þess að borgararnir hafi rétt til að veita valdhöfum aðhald fyrir opnum tjöldum.

Hins vegar hafi ávallt legið fyrir að síður valdhafa séu ekki yfir reglur miðilsins hafnar og þeir geti ekki notað Twitter til að hvetja til ofbeldis.

Sjá merki um undirbúning vopnaðra árása á þingið

Twitter lýsir svo greiningu sinni á tveimur tístum forsetans fá því fyrr á föstudaginn. Í því fyrra segist forsetinn þær sjötíu og fimm milljónir manna sem kusu hann muni hafa sterka rödd langt inn í framtíðina og verði hvorki vanvirtir eða látnir sæta órétti á neinn hátt. Í síðara tístinu tilkynnti forsetinn að hann myndi ekki verða við innsetningu Joe Biden þann 20. janúar næstkomandi.

Að mati Twitter hefur tíst forsetans um sterka rödd stuðningsmanna hans verið túlkað þannig að friðsamleg valdaskipti standi alls ekki til. Forsetinn fráfarandi ætli sér þvert á móti að halda áfram að hvetja stuðningsmenn sína áfram og efla þá til verka. Þá segir í yfirlýsingu Twitter að undirbúningur að frekari vopnuðum mótmælum sé þegar hafinn, þess sjáist merki bæði á Twitter og annarsstaðar. Þar á meðal sé önnur árás á Þinghúsið í Washington fyrirhuguð 17. janúar og á þinghús einstakra ríkja.

Umrædd tvö tíst forsetans séu talin líkleg til að hvetja til endurtekningar á svipuðum ofbeldisverkum og framin voru í Washington 6. janúar. Enda bendi framangreindar upplýsingar til þess að þeim hafi verið tekið sem hvatingu til slíks.