Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur hótað því að setja strangar reglur eða jafnvel loka samfélagsmiðlum. Yfirlýsingin kemur í kjölfar þess að samfélagsmiðillinn merkti færslu frá honum með fyrirvara um að um ósannindi væri að ræða.

„Repúblikönum finnst að samfélagsmiðlar þaggi alveg niður í röddum íhaldsmanna. Við munum setja strangar reglur eða loka þeim áður en við leyfum því nokkru sinni að gerast,“ sagði Trump í færslu á Twitter. Sagði hann einnig að Twitter væri með merkingunni að hlutast til um forsetakosningarnar sem fara fram í nóvember.

Fyrirvarinn sem um ræðir kemur í kjölfar gagnrýni á samfélagsmiðla um að leyfa ósannindum að grass­era, þannig hafi fyrirtækin gert óprúttnum aðilum kleift að hafa áhrif á kosningar. Hafði Trump tíst að póstatkvæðum fylgdu kosningasvik og birti Twitter þá merkingu þar sem fólk var hvatt til að kynna sér staðreyndir um póstatkvæði.

Bæði Twitter og Facebook hafa verið treg til þess að beita sér gegn forsetanum.

Timothy Klausutis, ekkill Lori Klausutis sem lést af slysförum fyrir hátt í tuttugu árum, skrifaði bréf til Jack Dorsey, forstjóra Twitt­er, nýverið þar sem hann óskaði eftir því að miðillinn fjarlægði kenningar Trumps um að Joe Scarborough, þáttastjórnandi MSNBC, hefði myrt eiginkonu sína. Scarbor­ough hefur verið mjög gagnrýninn á Trump. Hefur Trump sagt að dauði Lori Klausutis sé „mjög grunsamlegur“ og að það „þurfi að komast til botns í málinu“. Lögregla komst að þeirri niðurstöðu árið 2001 að ekkert saknæmt hefði átt sér stað.

Samflokksmenn Trumps eru ekki sáttir við skrif hans um Klausutis. „Við erum í miðjum heimsfaraldri. Hann er leiðtogi þjóðarinnar og veldur fjölskyldu ungrar konu sem lést þjáningum,“ sagði Liz Cheney, þingmaður Repúblikana, við blaðamenn í gær.

Brad Parscale, kosningastjóri Trumps, sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hann lýsti vonbrigðum stjórnarinnar með útspil Twitter. „Við vissum alltaf að Silíkondalur myndi ekki hika við að trufla og hindra að skilaboð Trumps forseta kæmust til kjósenda,“ sagði Parscale. „Það að stilla sér upp við hlið hlutdrægra fjölmiðla á „staðreyndavakt“ er aðeins bragð af hálfu Twitt­er til að reyna að gera sín pólitísku klækjabrögð trúverðug.“

Parscale vísaði til deilna Trumps við ýmsa forstjóra tæknifyrirtækja, sem mörg hver eru til húsa í Silíkondal. Samkvæmt heimildum Vox eru fjórir efnaðir aðilar í Silíkondal þegar byrjaðir að leggja hönd á plóg fyrir Joe Biden, forsetaefni Demókrata. Er stóra verkefnið að útvega Demókrötum nógu mikið af upplýsingum til að hægt sé að beita kosningapeningunum á hárréttum stöðum.