Twitter hefur lokað reikningi Jordan D. Peterson í kjölfar ummæla hans um leikarann Elliot Page. Þetta kemur fram á vef NYPOST en Twitter hefur sagt Peterson að reikningur hans verði ekki opnaður aftur fyrr en hann hefur eytt ummælunum.

Ummæli Peterson snúa að Elliot Page en hann kom út sem trans manneskja árið 2020. Eru ummæli Peterson nokkurn veginn á þessa vegu, í íslenskri þýðingu:

„Munið þið þegar stolt var synd? Og Ellen Page lét rétt í þessu afbrota lækni fjarlægja brjóstin sín“. En orðið sem Peterson notar um stolt er "pride" sem vafalítið tengist notkun orðsins meðal hinsegin fólks.

Twitter hefur flokkað ummæli Peterson sem hatursorðræðu en einnig er tekið fram að hann gerist sekur um að nota nafnið sem Elliot Page hefur valið að nota ekki sjálfur.

Slíkt kallast að dauðnefna (e. deadname) einhvern þar sem nafnið er ekki lengur það sem einstaklingurinn kýs að vera þekktur eftir.

Dave Rubin, sjónvarpsmaður sem fer með stjórn umræðuþáttarins The Rubin Report birti skjáskot af tísti Peterson og gagnrýnir þar stefnu Twitter.

Hann tekur einnig fram að hann hafi rætt við Peterson sem segist muni „aldrei taka út tístið“.

Jordan Peterson sem flutti nýverið fyrirlestur fyrir fullum sal í Laugardalshöll er þekktur fyrir íhaldssamar skoðanir sínar og gagnrýni á nútíma hugmyndir um kynfrelsi og kynréttindi.

Twitter reikningur hans er núna með um 2.8 milljónir fylgjenda en óvíst er hvenær hann getur snúið aftur á samfélagsmiðilinn.