Anna Hildur Guð­munds­dóttir, for­maður SÁÁ, segir að á­fengi sé allt­um­lykjandi í þjóð­fé­laginu. Neysla þess sé upp­hafin við öll tæki­færi á sama tíma og æ fleiri mið­aldra Ís­lendingar og eldri borgarar á­netjist á­fengis­fíkn með ömur­legum af­leiðingum.

Af inn­lagnar­tölum á Vogi má sjá tæpa tvö­földun í dag­drykkju 61 árs og eldri sem leita sér að­stoðar á tíu árum. Um 5 prósent sögðust drekka hvern dag árið 2011 en níu prósent í fyrra. Val­gerður Rúnars­dóttir, yfir­læknir á Vogi, segir já­kvæða þróun hafa orðið hjá ungu fólki en þróunin hjá hinum eldri sé al­vöru­mál. Drykkju ríg­full­orðinna fylgi oft leynd og skömm.

Anna Hildur bendir á að fólk á vinnu­markaðs­aldri njóti á­kveðins að­halds af vinnunni, fólk þurfi að halda sér í lagi, vakna á morgnana og mæta í sæmi­legu standi til vinnu. Við starfs­lok geti skapast hætta hjá ekki síst þeim sem áttu í vanda með á­fengi en náðu að stramma sig af vinnunnar vegna.

„Þá hverfa oft ýmsar skyldur og hömlu­leysið tekur við. Á­fengis­neyslan fer úr böndunum og af­leiðingarnar geta orðið hrika­legar,“ segir Anna Hildur.

„Verst er þegar fólk drekkur ofan í lyfin sín. Lyf og á­fengi eru mjög slæmur kok­teill“

Segir umræðuna hálfgert tabú

Á­fengi leikur að sögn Önnu Hildar neyt­endur harðar eftir því sem fólk eldist. Á­fengis­neysla rugli svefninn og jafn­vægis­skynið verði oft illa úti hjá eldri borgurum í kjöl­far ó­tæpi­legrar neyslu. Þá stór­aukist hætta á ýmsum byltum. Drukknir eldri borgarar endi oft á slysa­deild með bein­brot eða aðra á­verka.

„Verst er þegar fólk drekkur ofan í lyfin sín. Lyf og á­fengi eru mjög slæmur kok­teill,“ segir Anna Hildur.

Þar sem æ fleiri ung­menni kjósi nú á­fengis­lausan lífs­stíl þykir ýmsum sem þróunin í efri aldurs­hópum skjóti skökku við. Anna Hildur segir að fólk megi ekki gleyma að alkó­hól­ismi sé ekki alltaf gena­bundinn heldur stundum á­unninn.

„En það er hálf­gert tabú að ræða þessi mál. Ein á­stæðan er þessi rosa­lega á­fengis­dýrkun í sam­fé­lagi sem stundum virðist hrein­lega gegn­sósa af á­fengi.“

Búið að tengja áfengisneysluna við heilbrigðisviðburði

Anna Hildur bendir á að ein­stak­lingur sem fylgist með sam­fé­lags­miðlum, upp­fullum af af­rekum hinna sterku, frjóu og iðju­sömu, geti fundið til van­máttar og valið að deyfa sig með á­fengi.

„Við sjáum að margir pósta myndum af sigrum þegar þeir ná á fjalls­tind með því að lyfta glasi. Það eru ótal myndir úti um allt þar sem fólk fagnar sigrum með á­fengi. Með þessu er búið að tengja á­fengis­neyslu við heil­brigðis­við­burði, sem orkar vægast sagt mjög tví­mælis,“ segir Anna Hildur.

SÁÁ blæs til ráð­stefnu í haust í vakningar­skyni þar sem fjallað verður meðal annars um skað­lega sam­fé­lags­lega viður­kenningu á drykkju.

Anna Hildur Guðmundsdóttir, formaður SÁÁ, segir æ fleiri mið­aldra Ís­lendinga og eldri borgarar á­netjast á­fengis­fíkn með ömur­legum af­leiðingum.
Fréttablaðið/Auðunn