Eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær hafa greinaskrif framkvæmdastjóra Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF), viðbragð við skrifum Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) um það sem félagið kallar okur tryggingafélaga, leitt til formlegrar kvörtunar sem lögmaður FÍB hefur sent Samkeppnisstofnun. FÍB telur að SFF hafi með ólögmætum hætti tekið að sér hagsmunagæslu fyrir tryggingafélögin. Hagsmunagæslan kunni að hamla frjálsri samkeppni sem skaði neytendur og sé brot á samkeppnislögum. SFF telja sig ekki hafa brotið lög, enda sé samtökunum frjálst að fjalla um tryggingamarkaðinn, þau hafi ekki dregið taum tiltekinna fyrirtækja.

Baksaga málsins er að FÍB staðhæfði að á undanförnum sex árum hefðu iðgjöld bílatrygginga hækkað um 44 prósent en verðlagsvísitala hefði á sama tíma hækkað um 17 prósent. Slysum í umferðinni hefði á tímabilinu fækkað verulega.

„Tryggingafélögin græða á tá og fingri eins og viðskiptafréttir bera með sér. Kemur auðvitað ekki á óvart, viðskiptamódelið er skothelt: Engin verðsamkeppni, stöðug hækkun iðgjalda, minnkandi kostnaður og velþóknun stjórnvalda,“ segir FÍB.

Þá segir félagið, sem gætir hagsmuna um 18.000 félagsmanna, að söfnunarsjóðir tryggingafélaganna belgist út vegna oftekinna iðgjalda. Félagið segir enn fremur að iðgjaldahækkanir á bílatryggingum séu komnar út yfir allt velsæmi. Á sama tíma hafi tryggingafélögin mörg undanfarin ár kynnt fádæma góða afkomu. Iðgjöld bílatrygginga séu að jafnaði tvöfalt hærri hér á landi en á hinum Norðurlöndunum og er ekki um það deilt.

Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri SFF, brást við þessum skrifum FÍB í svargrein sem hefur birst bæði á visir.is og á heimasíðu samtakanna. Þar segir hún FÍB nota kunnugleg gífuryrði um okur og vafasama viðskiptahætti. Valdar tölur úr opinberum gögnum séu notaðar til að styðja við þær fullyrðingar en samtökin geri athugasemdir við framsetninguna.

Í tilfelli tryggingafélaga segja SFF að laun skipti miklu máli þegar kemur að fjárhæð bótagreiðslna. Laun séu lögð til grundvallar við mat á þeirri tryggingavernd. Á fyrrnefndu tímabili hafi laun hækkað um 59 prósent.

Þá bendir Katrín á að viðgerðarkostnaður bifreiða hafi hækkað um 36 prósent og því sé ekki bara hægt að horfa til vísitölu neysluverðs þegar rýnt sé í verðhækkanir tryggingafélaga, launaþróun á Íslandi skipti einnig gríðarmiklu máli.