Heilbrigðisstofnun Vesturlands (HVE) á Akranesi hefur útbúið nýja skurðstofu fyrir liðskiptiaðgerðir. Það kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu en afkastageta mun tvöfaldast með tilkomu skurðstofunnar og verða um 430 aðgerðir gerðar á ári.

Fjallað hefur verið um liðskiptiaðgerðir og biðvanda í Fréttablaðinu undanfarna daga en greint var frá því í morgun að Klíníkín í Ármúla reiknar með því að geta framkvæmt 650 aðgerðir á ári.

„Þörf fyrir liðskiptaaðgerðir hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár og er þessi skurðstofa því mikilvæg viðbót við þau úrræði sem fyrir eru til þess að bregðast við þessari þróun. Samhliða nýju skurðstofunni hefur verið unnið að gagngerum endurbótum á húsnæði og búnaði handlækninga- og lyflækningadeildar HVE sl. 15 mánuði sem er mikil lyftistöng fyrir stofnunina,“ kemur fram í tilkynningu ráðuneytisins.

Vilja samræmt skráningarkerfi

Ráðherra hefur jafnframt ákveðið að skipa verkefnastjórn til að meta og innleiða tillögur starfshóps um gæðamál tengd liðskiptaaðgerðum og birt nýja skýrslu starfshóps um gæðamál tengd liðskiptaaðgerðum. Þar eru lagðar fram tillögur að samræmdu og stöðluðu verklagi liðskiptaaðgerða, allt frá undirbúningi tilvísunarbeiðna til eftirfylgdar eftir aðgerð.

Þær tillögur sem lagðar eru til eru sem dæmi að innleiða samræmt skráningarkerfi í biðlistagrunn, að innleitt verði samræmt verklag við greiningu og meðferð vegna slitgigtar í mjöðmum og hnjám innan heilsugæslunnar, að innleitt verði nýtt verklagi við tilvísanir til mats hjá bæklunarskurðlækni og að gert verði samræmt og vandað upplýsingaefni fyrir sjúklina.

Óskað hefur verið eftir tilnefningum í verkefnastjórnina frá embætti landlæknis, Landspítala, Sjúkrahúsinu á Akureyri, Heilbrigðisstofnun Vesturlands og Klíníkinni og er gert ráð fyrir að tilnefningar liggi fyrir í lok þessa mánaðar.