rannsókn gefur til kynna að tvöfalt fleiri ótímabær dauðsföll megi rekja til loftmengunar en áður var talið. Samkvæmt rannsókninni, sem birt hefur verið í vísindaritinu European Heart Journal, mátti rekja 790 þúsund ótímabær dauðsföll í Evrópu til loftmengunar árið 2015. 

Í niðurstöðunum felst að loftmengun verður nú fleira fólki aldurtila í álfunni en tóbaksreykingar, að sögn Thomas Münzel, prófessors við University Medical Centre, Mainz í Þýskalansi. Hann var hluti rannsóknarteymisins. 

Á heimsvísu falla 8,8 milljónir manna árleg í valinn af völdum mengunar. Vísindamennirnir sem að rannsókninni stóðu segja að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin þurfi að lækka heilsuverndarmörk fyirr svifryk og loftmengun.

Sjá einnig: Mikil loftmengun: Svifrykið þyrlast upp þegar hvessir

Rannsóknin gefur til kynna að jafnvel þó lungun verði fyrst fyrir barðinu á menguninni, með innöndun, þá berist mengunin til blóðrásarinnar, sem valdið getur hjartaáföllum í áður óþekktum mæli. Dauðsföll sem rekja má til þess að mengunin nær til blóðrásarinnar grandar tvöfalt fleira fólki en sjúkdómar tengdir öndunarfærunum. Hjartasjúkdómar skýrðu fjörutíu prósent dauðsfallanna 800 þúsund, sem rakin voru til mengunar.

Niðurstöðurnar undirstrika mikilvægi þess að draga verulega úr brennslu jarðefnaeldsneytis, að sögn Jos Lelieveld, prófessors við Max-Plank Institute for Chemistry, í Mainz í Þýskalandi. „Loftmengun kemur aðallega frá brennslu jarðefnaeldsneytis. Við þurfum að skipta um orkugjafa tafarlaust. Þegar við förum að nota hreina endurnýjanlega orkugjafa munum við ekki aðeins uppfylla Parísarsáttmálann og milda loftlagsbreytingar vegna losun gróðurhúsalofttegunda, heldur gætum við dregið úr dauðsföllum af völdum loftmengunar um 55%.“

Sjá einnig: Vara við mengun á höfuðborgarsvæðinu

Rannsóknin dró saman niðurstöður þriggja eldri rannsókna. Rýnt var í gögn um útbreiðslu loftmengunar, þéttleika byggðar og aldur og áhrif loftmengunar á heilsu fólks. Vegna gæði þeirra gagna sem nú eru fyrir hendi var hægt að reikna út fjölda dauðsfalla á miklu nákvæmari hátt en áður var mögulegt. Áður voru óbeinar reykingar notaðar til að mæla áhrif loftmengunar á heilsu fólks en þau gögn reyndust vanáætla áhrifin mjög.

Ótímabær dauðsföll af völdum loftmengunar reyndust mjög breytileg eftir löndum. Í Þýskalandi voru nærri því 154 slík dauðsföll á hverja 100 þúsund íbúa. Þar dregur mengunin úr lífslíkum sem nemur 2,4 árum. Í Bretlandi reyndist hlutfallið lægra en talið er að þar spili Atlantshafsvindar inn í; sem blása menguninni burt.

Münzel segir í greininni að Evrópa hafi dregist afturúr þegar kemur að því að meta hættu af völdum svifryks og mengunar. Setja þurfi strangari viðmið. Læknar og sjúklingar geti ekki breytt staðreyndum um loftmengun. Það sé stjórnmálamanna að stuðla að því að byggja okkur heilsusamlegt umhverfi.

Í rannsókninni kemur fram að vikmörkin séu nokkuð mikil, þegar talan 790 þúsund sé nefnd. Dauðsföllin geti verið á bilinu 645 þúsund til 934 þúsund á ári. Áhrif loftmengunar geti í einhverjum tilfellum hafa verið ofmetin - en jafn líklegt sé að þau hafi verið vanmetin þegar kemur að því að meta ástæður dauðsfalla.