Öflugt þrumuveður gekk yfir Suðvesturland og Faxaflóa í gær. Þórður Arason, sérfræðingur á sviði veðursjárrannsókna og -eftirlits hjá Veðurstofu Íslands, segir að mælir sem stofnunin rekur fyrir bresku veðurstofuna, hafi mælt eitt hundrað eldingar. Hann segir þó að hér á Íslandi mælist aðeins um helmingur eldinganna. „Þær gætu hafa verið um það bil tvö hundruð,“ segir hann.

Þórður segir að þrumuveður líkt og það sem gekk yfir í gær verði um það bil tvisvar á ári á Íslandi. Tíðust séu svona þrumuveður undir jöklunum á Suðurlandi. Vegna staðsetningar þrumuveðursins, yfir suðvesturhorninu, hafi hins vegar fleiri orðið varir við það að þessu sinni. „Það verða að jafnaði tvö vona veður á Íslandi á ári. Það er langalgengast að þau verði undir Mýrdalsjökli, Eyjafjöllum og Vatnajökli. Þar verða langmestu þrumu- og eldingaveður landsins.“

Eldingaveðrið náði hámarki þegar éljabakkinn, sem kom úr suðri, var yfir byggð á Suðvesturlandi. Þórður segir að eldingar hafi fyrst gert vart við sig þegar bakkinn var um 1000 kílómetrum suður af landinu. Ekki hafi þó verið byrjað að telja fyrr en bakkinn kom norður fyrir 63 breiddargráðu. Ísland liggur á milli 63 og 66 breiddargráðu.

Krafturinn í eldingaveðrinu jókst þegar bakkinn var um 400 kílómetra suður af landinu og náði hámarki þegar veðrið gekk yfir byggðina. Flestar eldingarnar urðu yfir höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesi, Faxaflóa og út að Snæfellsnesi. „Þetta var sæmilega líflegt,“ segir Þórður og bendir á að þrumu og eldingatíðnin sé lægri á Íslandi en í löndum sem sunnar eru. Að meðaltali verði tvö eldingaveður í Reykjavík á ári. Með Suðurströndinni verði að jafnaði fjögur eldingaveður á ári. Fyrir norðan verður eldingaveður að jafnaði annað hvert ár.

Þórður segist ekki hafa heyrt af því að eldingum gærdagsins hafi lostið niður eða þær orðið til vandræða í byggð. Hann segir að flestar eldingarnar slái á milli staða í þrumuskýinu. „Sumar slá til jarðar og geta þá valdið verulegu tjóni í rafkerfum og tækjum eða drepið fólk, ef þær fara í fólk,“ segir hann en bætir við að fólk sé yfirleitt vel varið í húsum eða bílum. „Það fylgir þessu úrhellisrigning, eða haglél eins og í gær, og þá leitar fólk yfirleitt skjóls.“

Eitt mesta eldingaveður síðari tíma á Íslandi varð 29. júlí í fyrra. Þá voru skráðar 356 eldingar. „Það þarf að fara langt aftur til að ná því.“