Björgunarsveitir á Vesturlandi fóru í tvö útköll í dag að fossinum Glym. Fyrri tilkynningin barst um klukkan þrjú í dag vegna konu sem hafði hrasað og slasað sig á fæti og gat ekki gengið sjálf. Í tilkynningu frá Landsbjörg kemur fram að fyrstu hópar hafi verið komnir að konunni um klukkustund síðar.

Þá var hafist handa við að hlúa að henni og hún svo borin niður um 500 metra þar sem sexhjól gat tekið við og flutt hana áfram að sjúkrabíl til frekari aðhlynningar en samkvæmt tilkynningu er talið líklegt að hún sé ökklabrotin.

Féll tíu metra

Stuttu síðar barst svo önnur tilkynning frá gönguleiðinni og þá um mann sem hafði hrasað um tíu metra ofan í gilið og var þá talinn illa slasaður. Fyrstur til mannsins var björgunarsveitarmaður sem hafði verið hluti af fyrra útkalli og þá kom í ljós að maðurinn var minna slasaður en var talið í fyrstu. Honum var fylgt á bílastæði þar sem hann fór á eigin vegum á slysadeild.