Björgunar­sveitir fengu tvö út­köll á næstum sömu mínútu um fimm­leytið í dag, en maður hafði dottið í gil rétt vestan við Geysi og tveir vél­sleða­menn lent í vand­ræðum á Hvamms­heiði á Norður­landi.

Maðurinn sem féll í gil við Geysi er talinn vera fót­brotinn og fóru fjór­tán björgunar­sveitar­menn til að­stoðar við hann. Í til­kynningu frá Lands­björgu segir að hífa þurfi manninn upp með fjalla­björgunar­kerfi, þar sem mikill bratti er á staðnum og hálka. Þá þarf einnig að bera manninn talsverða leið að sjúkrabíl.

Þá var björgunar­sveitin Haf­liði á Þórs­höfn kölluð út til að­stoðar við vél­sleða­menn sem eru stranda­glópar á Hvamms­heiði en báðir sleðar mannana virðast hafa bilað. Hvamms­heiði er tals­vert fjarri byggð og munu björgunar­sveitar­mennirnir sækja mennina.