Björgunarsveitir fengu tvö útköll á næstum sömu mínútu um fimmleytið í dag, en maður hafði dottið í gil rétt vestan við Geysi og tveir vélsleðamenn lent í vandræðum á Hvammsheiði á Norðurlandi.
Maðurinn sem féll í gil við Geysi er talinn vera fótbrotinn og fóru fjórtán björgunarsveitarmenn til aðstoðar við hann. Í tilkynningu frá Landsbjörgu segir að hífa þurfi manninn upp með fjallabjörgunarkerfi, þar sem mikill bratti er á staðnum og hálka. Þá þarf einnig að bera manninn talsverða leið að sjúkrabíl.
Þá var björgunarsveitin Hafliði á Þórshöfn kölluð út til aðstoðar við vélsleðamenn sem eru strandaglópar á Hvammsheiði en báðir sleðar mannana virðast hafa bilað. Hvammsheiði er talsvert fjarri byggð og munu björgunarsveitarmennirnir sækja mennina.