Landhelgisgæslan hefur þurft að svara tveimur útköllum eftir þyrlum í dag. Í fyrra skiptið var þyrla á hennar vegum kölluð á vettvang í kringum hádegisbil til að finna erlenda ferðamenn sem höfðu týnst í göngu á Trölladyngju. Ferðamennirnir fundust en voru þá orðnir gersamlega örmagna og voru því fluttir með þyrlu á spítala.

Seinna skiptið var í kringum þrjú. Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð á vettvang vegna manns sem hafði slasast í göngu á Esjunni. Sjúkraflutningamenn voru komnir að honum en vegna aðstæðna þótti betra að kalla til þyrlu. Maðurinn var fluttur með þyrlu á Landspítalann í Fossvogi. Ekki liggur fyrir hve alvarleg meiðsli hans voru.