Tvö þúsund Reykvíkingar hafa nú þegar skráð sig í ferðaþjónustuappið CouchSurfing sem gæti útlagst á íslensku sem sófagisting, en þjónustan felur í sér að bjóða gestum og gangandi fría gistingu á sófanum í stofunni.

Um nokkurra ára gamalt app er að ræða sem notið hefur mikilla vinsælda á meðal ferðalanga sem geta með þessu móti bankað upp á hjá tilgreindum húseigendum og hallað höfði sínu í sófa þeirra, án þess að borga húseigendum krónu fyrir.

Notendur þessarar þjónustu þurfa þó að greiða eigendum appsins tvær evrur á mánuði fyrir að geta nýtt sér smáforritið, en gerist þeir eins árs áskrifendur er kostnaðurinn ein evra á mánuði, eða sem nemur um rösklega 1.500 krónum á ári.

Appið umrædda, CouchSurfing, er einkum og sér í lagi notað af námsmönnum sem eru að ferðast um heiminn og hafa ekki mikið á milli handanna, en kæra sig kollótta þótt þeir leggist inn á ókunnugt fólk, milli þess sem þeir ferðast um landið og njóta þess sem það hefur upp á að bjóða.