Á­kvörðun hefur verið tekin um að svæfa allt að tvö þúsund hamstra í Hong Kong í dag eftir að Co­vid-19 hóp­smit voru rakin til gælu­dýra­búðar þar í borg.

Smit sem greindust hjá ein­stak­lingum er tengdust starfs­manni gælu­dýra­búðarinnar leiddu til þess að tekin var á­kvörðun um að skima hundruð dýra og greindust 11 hamstrar já­kvæðir.

Kín­versk yfir­völd hafa því á­kveðið að stíga fast niður fæti og fyrir­skipað að þúsundir gælu­dýra skuli svæfð til að koma í veg fyrir frekari út­breiðslu en Kín­verjar eru með yfir­lýsta stefnu um að sýna ekkert um­burðar­lyndi í bar­áttunni við veiruna.

Ættu að forðast að kyssa dýrin

Heil­brigðis­ráð­herra Hong Kong, Sophia Chan, sagði á blaða­manna­fundi að engar vís­bendingar væru um það að gælu­dýr gætu smitað fólk af Co­vid-19 en í­trekaði þó að yfir­völd væru engu að síður að gæta helstu var­úðar­ráð­stöfunum, þar á meðal að banna inn­flutning og sölu á nag­dýrum.

„Gælu­dýra­eig­endur ættu að halda góðu hrein­læti, þar með talið að þvo hendur eftir að haf snert dýrin, með­höndlað mat þeirra eða aðra hluti, og forðast að kyssa dýrin,“ bætti Leung Siu-fai Leung, for­stjóri Land­búnaðar, sjávar­út­vegs og dýra­verndunar­ráðu­neytis Hong Kong, við í sam­tali við blaða­menn.

Að sögn Leung munu um tvö þúsund hamstrar frá 34 gælu­dýra­búðum verða svæfðir á mann­úð­legan hátt. Öllum sem keyptu hamstur eftir 22. desember 2021 er gert skylt að af­henda yfir­völdum dýrið. Þá verður einnig sett upp sér­stök síma­þjónusta sem ein­staklingar geta hringt inn í með spurningar er varða hamstra­málið.

Hundruð sýna voru tekin úr öðrum dýrum svo sem kanínum og öðrum nag­dýrum en enn sem komið er hefur veiran að­eins greinst í hömstrum.