„Stað­fest er að tvö af þeim þremur sem létust í brunanum voru fé­lags­menn í Eflingu, verka­fólk af er­lendum upp­runa sem komu hingað til lands til að vinna verka­manna­störf,“ segir í til­kynningu frá Eflingu í dag.

Lentu í gildru

Stétta­fé­lagið sendir sam­úðar­kveðjur til að­stand­enda þeirra sem sem létu lífið í brunanum á Bræðra­borgar­stíg 1 þann 25. júní síðast­liðinn. „Hingað komin lentu þau í gildru ein­stak­lings sem leigði þeim hættu­legt hús­næði í ó­boð­legu um­hverfi.“

Sól­veig Anna Jóns­dóttir, for­maður Eflingar, kveðst vera harmi lostin yfir þessum sorgar­at­burði. „Í starfi mínu síðustu tvö ár hef ég á hverjum einasta degi heyrt um launa­þjófnað, arð­rán, mis­beitingu, rugl og ógeð. „Besti vinnu­markaður í heimi“ er ekkert nema mar­tröð fyrir mörg af okkar að­fluttu fé­lögum,“ segir Sól­veig.

Ekki skortur á á­bendingum

Þrátt fyrir að niður­stöður rann­sóknar lög­reglu liggi ekki fyrir segist Efling ekki geta annað en að setja brunann í sam­hengi við þá með­ferð sem að­flutt vinnu­afl verður fyrir á Ís­landi. „Enginn skortur hefur verið á á­bendingum um lög­leysu og van­rækslu þegar kemur að stöðu er­lends verka­fólks á Ís­landi. Á það bæði við réttindi á vinnu­markaði og hús­næðisað­búnað.“

Stétta­fé­lagið bendir þar á fjölda um­fjallanir Stundarinnar og Kveikt um hús­næðið sem brann sem og stöðu verka­fólks sem þar bjó.

„Ég krefst þess að við hættum að þola skeytingar­leysi þeirra sem völdin hafa yfir lífs­skil­yrðum fé­laga okkar sem þurfa mest af öllum á því að gengið verði í að bæta þeirra kjör og að­stæður. Hinn hræði­legi harm­leikur verður að hafa raun­veru­legar af­leiðingar. Ég hef engin orð til að lýsa Ís­landi ef að það gerist ekki,“ segir for­maður fé­lagsins.

Krefjast við­bragða

„Efling krefst þess að fé­lags­mála­ráð­herra og ríkis­stjórnin efni tafar­laust lof­orð um hertar að­gerðir gegn brota­starf­semi á vinnu­markaði, þar með talið lof­orð um sektar­heimildir vegna kjara­samnings­brota og önnur viður­lög.“

Þá krefst stétta­fé­lagið einnig að borin sé eðli­leg virðing fyrir lífi, heilsu og öryggi alls verka­fólks og að bundinn verði endir á kerfis­bundna mis­munun gegn verka­fólki af er­lendum upp­runa.