Tvö ný kórónuveirusmit greindust hér á landi síðasta sólarhring. Tólf eru með virkt smit en 1.818 hafa náð bata.

Einn greindist með kórónu­veiru­smit í skimun við landa­mærin í gær og einn á sýkla- og veiru­fræðideild Land­spít­al­ans. Þetta kemur fram í tölulegum upplýsingum á covid.is

Alls voru 1.365 teknir í sýna­töku við landa­mærin. 16 sýni voru tek­in hjá sýkla- og veiru­fræðideild Land­spít­al­ans í gær og 234 hjá Íslenskri erfðagrein­ingu.

Alls eru nú 443 einstkalingar í sóttkví og fjölgar þar um rúmlega hundrað milli daga.

Frá opnun landamæra þann 15. júní hafa alls 30 einstaklingar greinst með veiruna. 22 hafa greinst við landamæraskimun en aðeins 4 með virkt smit. Hinir einstaklingarnir voru með gamalt smit og því ekki smitandi. Innanlandssmit eru 4 frá 15. júní.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra boðar til upplýsingafundar klukkan 14 í dag.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, Alma D. Möller, landlæknir og Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn fara yfir stöðu mála varðandi opnun landamæra og COVID-19 hér á landi.