Tveir greindust með inn­­­­­lent kórónu­veiru­­­­­smit síðasta sólar­hringinn. Báðir greindust þeir hjá Ís­­­­­lenskri erfða­­­­­greiningu en enginn greindist hjá sýkla- og veirufræðideld Landspítala. Þetta kemur fram í nýjum tölum á co­vid.is.

Alls eru nú 114 í ein­angrun á landinu, jafnmargir og í gær og skýrist það af því að fjórir losnuðu úr einangrun á landinu en tveir greindust við landamæraskimun til viðbótar við þá tvo sem greindust innanlands. Í sótt­kví eru 938 og fækkaði þeim um 24 frá því í gær.

Ó­víst er hvort þeir tveir sem greindust með veiruna í gær hafi verið í sótt­kví við greiningu. Búast má við því að Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir greini frá því á upp­lýsinga­fundi al­manna­varna í dag, sem hefst klukkan 14:00. Enn liggja tveir á spítala og annar þeirra á gjörgæslu.

Eitt virkt smit greindist á landamærunum í gær og þá reyndist sá sem greindist með smit við landa­mærin á laugardag vera með virkt smit en niður­staða mót­efna­mælingar leiddi það í ljós. Beðið eftir niðurstöðu mótefnamælingar frá einum í viðbót sem var með jákvætt sýni á landamærunum í gær.

Fá innan­lands­smit greindust um helgina, öll hjá sýkla- og veirufræðideild; þrjú á föstudag, þrjú til við­bótar á laugardag og nú tvö í gær, sunnudag. Það hefur þó oftast verið þannig í gegnum far­aldurinn að færri smit greinast yfir helgar.

Alls voru 3.161 sýni tekin á landinu öllu síðasta sólar­hring; 2.929 hjá sýkla- og veiru­­­fræði­­­deild, 59 hjá Ís­­­lenskri erfða­­­greiningu og 173 í landa­­­mæra­skimun.

Fréttin hefur verið uppfærð.