Ferðamenn frá Ísrael voru þeir einu sem heimsóttu Ísland í meira mæli í vor en vorið 2020. Um fjórfalt fleiri Ísraelar heimsóttu Ísland á tímabilinu janúar til júní í ár en á sama tímabili í fyrra, samkvæmt tölum frá Ferðamálastofu.

Alls fóru 1.129 Ísraelar í gegnum Keflavíkurflugvöll á tímabilinu en einungis 277 í fyrra. Á sama tímabili fækkaði ferðamönnum frá öllum öðrum löndum.

Árangur Ísraels og Íslands í bólusetningum spilar þar líklegast stærstan hlut, en í janúar 2021 var tilkynnt að Ísraelar hefðu bólusett rúmlega milljón manns.

Tvö ísraelsk flugfélög ætla að fljúga til Íslands það sem eftir er af sumri og má því búast við að ferðum Ísraelsmanna til Íslands fjölgi enn. Fyrsta flugvél ísraelska flugfélagsins El Al lenti á Keflavíkurflugvelli síðdegis á fimmtudaginn, en hún kom frá frá Tel Aviv.

Ferðin var sú fyrsta af fimm hjá félaginu til Íslands í sumar, með hóp ferðafólks frá Ísrael.

El Al bættist þannig í hóp tuttugu flugfélaga sem þegar hafa hafið flug til og frá Keflavíkurflugvelli í sumar.

Þann 27. júlí næstkomandi bætist annað ísraelskt flugfélag, Arkia, í hópinn. Arkia flýgur fimm ferðir með ísraelska ferðahópa til landsins fram til 31. ágúst.

Hvorugt flugfélagið hefur flogið áður til Keflavíkurflugvallar. Búast má því við að ísraelskum ferðamönnum á Íslandi haldi áfram að fjölga. Af þeim 1.129 Ísraelum sem heimsóttu landið í vor voru um 900 í síðasta mánuði.