Tvö greindust með COVID-19 innanlands síðastliðinn sólarhring en eitt þeirra var utan sóttkvíar við greiningu. Ekkert smit greindist við landamærin.

Þetta kemur fram í bráðabirgðatölum frá Almannavörnum en tölur verða uppfærðar á upplýsingavefnum covid.is á morgun, mánudaginn 10. maí.

Ljóst er að smit er enn úti í samfélaginu, þó að fáir séu að greinast utan sóttkvíar.

Í gær greindust fjögur smit í Skagafirði og var eitt þeirra utan sóttkvíar. Smitrakning hefur staðið yfir frá því í gær og er talsverður fjöldi fólks komin í úrvinnslusóttkví í sveitarfélaginu.

Breytingar taka gildi í dag á starfsemi sveitarfélagsins; Sundlaugar verða opnar en heitir pottar verða lokaðir ásamt gufu- og eimböðum, Mælst er til þess að íþróttaæfingar yngri flokka verði felldar niður meðan smitrakning stendur yfir og þangað til heildarmynd er komin á dreifingu smita.

Umhverfisdagar sveitarfélagsins, sem áttu að fara fram 15. maí, og plokk-áskoranda keppni milli fyrirtækja sem átti að hefjast á mánudag, hefur verið frestað um óákveðin tíma.