Öryrkjar sem vilja bæta hag sinn með atvinnuþátttöku samhliða lífeyristöku eiga þrátt fyrir það erfitt með að ná endum saman. Þetta eru niðurstöður Kjara­frétta Eflingar, en þar segir að of lágur lífeyrir almannatrygginga, of miklar skerðingar og of háir skattar á lágar tekjur lífeyrisþega festi allt of marga örorkulífeyrisþega í fjötrum fátæktar.

„Ég hef nú rannsakað þessi mál lengi og því ekki mikið sem kemur mér á óvart í þessu,“ segir Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði og ábyrgðarmaður Kjarafrétta, í samtali við Fréttablaðið. Hann nefnir þó dæmi um niðurstöður sem komu honum í opna skjöldu.

„Örorkulífeyrisþegi sem aflar sér allt að 200 þúsund króna með atvinnuþátttöku. Það kemur mér á óvart hvað það bætir hag hans lítið. Þó að það saxi á hallareksturinn þá dugar það samt ekki til,“ segir hann og bætir við að þetta sé dæmi um ofurskerðingar.

Allir þrír koma út í mínus

Þar vísar Stefán í dæmi úr greiningu sinnu. Þar er skoðaður öryrki sem býr einn í sextíu fermetra leiguíbúð í Reykjavík. Miðað er við örorku við fjörutíu ára aldur, og þrjár mismunandi leiðir skoðaðar: þar sem einstaklingurinn er ekki með neinar aðrar tekjur en frá lífeyrinum, þar sem hann fær 100 þúsund krónur aukalega úr atvinnuþátttöku og síðan þar sem hann fær 200 þúsund krónur aukalega, líka úr atvinnuþátttöku.

Niðurstaðan er sú að allir þrír einstaklingarnir koma út með halla mánaðarlega. Sá sem er með engar tekjur aukalega endar í tæplega 45 þúsund króna halla, sá sem er með 100 þúsund króna tekjur endar í tæplega 23 þúsund króna halla og að lokum endar sá sem er með 200 þúsund króna tekjur í rúmlega tvö þúsund króna halla.

„Eins vitlaust og getur verið í lífeyriskerfi“

Í greiningunni segir að meginlexían af þessum reiknidæmum sé sú, að almannatryggingakerfið og tekjuskattskerfið streitist gegn því að öryrkjar geti bætt afkomu sína með atvinnuþátttöku. Svipuð dæmi eru tekin þar sem aukatekjurnar komu frá lífeyrissjóðum og eru niðurstöðurnar svipaðar. Í greiningunni er fullyrt að kerfið sé með þessu að festa fólk í fátæktargildru.

„Þetta er eins vitlaust og getur verið í lífeyriskerfi,“ segir Stefán, sem telur þetta fyrirkomulag vinnuletjandi. Þá gagnrýnir hann velferðarkerfið yfir höfuð og segir það órökrétt og ósanngjarnt á marga vegu.

Í Kjarafréttum Eflingar segir síðan að velferðarkerfið ætti að styðja betur við afkomu þeirra sem þurfa á því að halda og hvetja jafnframt til sjálfsbjargar með atvinnuþátttöku. Því er síðan haldið fram að í stað þess að gera það leggi kerfið stóra steina í götu fólks sem vill vinna með örorkulífeyrinum.