Um tvö hundruð manns voru handteknir í Houston í gærkvöldi og fjórir lögregluþjónar slösuðustu eftir mótmæli vegna dauða George Floyd en hann var upprunarlega frá Houston í Texas.

Mótmælandi birti myndband á Twitter þar sem lögregluþjónn á hesti sést traðka á konu sem mótmælti friðsamlega með skilti. Ekki er vitað hvort það hafi verið óvart eða viljandi.

Lögregluþjónninn sem kraup á hálsi Floyd þar til hann kafnaði og lést, hefur verið handtekinn og ákærður fyrir morð og var þremur lögregluþjónum sagt upp störfum í tengslum við málið.

Atvikið, sem náðist á myndband og fór á dreifingu um netið í vikunni, hefur vakið mikla reiði vestanhafs. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem myndband fer á dreifingu af lögregluofbeldi gegn svörtu fólki í Bandaríkjunum.

Mótmæli hafa brotist út og staðið yfir í nokkra daga í Minneapolis sem virtist hafa tendrað baráttuandann í fólki víða um Bandaríkin.

Meðal þeirra borga sem mót­mælt hefur verið í eru New York, At­lanta, Port­land auk annarra borga. Mót­mælendur krefjast bættra vinnu­bragða meðal lög­reglu­manna og breyttrar stöðu svartra í Banda­ríkjunum.