Fjöldi Co­vid-smita á heims­vísu er kominn yfir tvö hundruð milljónir sam­kvæmt Center of Sy­stems Science and Engineering við Johns Hop­kins há­skóla í Banda­ríkjunum. Þó má gera ráð fyrir að þau séu mun fleiri enda er mis­vel haldið utan um töl­fræði far­aldursins eftir löndum. Fjöldi smita fór úr hundrað milljónum í tvö hundruð á helmingi styttri tíma en hann fór í hundrað milljónir.

Þrátt fyrir að fjöldi smita sé ekki full­komin leið til að meta á­hrif veirunnar, þar sem flestir sem smitast fái lítil eða engin ein­kenni, gagnast smit­tölur til að meta stöðu hans á heims­vísu. Líkt og blikkandi rautt ljós í flug­vél sem varar við hættu að því er segir í um­fjöllun New York Times.

Auknum fjölda smita fylgir meira álag á bráða­mót­tökum og nokkrum vikum síðar aukningu í dauðs­föllum af völdum veirunnar. Nú hafa minnst 614 þúsund látist í Banda­ríkjunum af þessum sökum, meira en 550 þúsund í Brasilíu, meira en 425 þúsund á Ind­landi og í það minnsta 240 þúsund í Mexíkó. Í Bret­landi, Frakk­landi og Ítalíu hafa meira en hundrað þúsund látist í hverju landi fyrir sig. Hér á landi hafa þrjá­tíu látist. Eins og staðan er nú hafa meira en 4,2 milljónir dáið af völdum Co­vid-19. Nú er búið að gefa rúmlega 4,2 milljarða skammta bóluefnis á heimsvísu.

Ferðalangur á lestarstöð í Shanghai í Kína sýnir heilbrigðisstarfsfólki bólusetningarvottorð.
Fréttablaðið/EPA

Delta-af­brigðið berst nú eins og eldur í sinu um heiminn. Það er talið tvö­falt meira smitandi en fyrri af­brigðið veirunnar. Frá 19. til 25. júlí greindust tæp­lega fjögur milljón smit sam­kvæmt Al­þjóða­heil­brigðis­mála­stofnuninni og á sama tíma létust um 70 þúsund manns. Á­standið er verst í þeim löndum þar sem bólu­setningar ganga illa og á það einkum og sér í lagi við fá­tækari ríki heims.

Þrátt fyrir að mörg ríki hafi gripið á nýjan leik til harðra sótt­varna­að­gerða, eða aldrei af­létt þeim, dreifir veiran sér sem aldrei fyrr. Í Ástralíu gekk vel framan af að stöðva út­breiðslu með sam­komu­tak­mörkunum og út­göngu­bönnum. Raunin er þó önnur nú.

Í Indónesíu eru lítið búið að bólu­setja og far­aldurinn því mun ban­vænni en í löndum þar sem þær eru út­breiddar. Í júlí greindust á einum degi tæp­lega 57 þúsund smit, sjö sinnum fleiri en mánuði áður. Í sama mánuði létust fleiri en nokkru sinni fyrr í landinu, 1.205. Dauðs­föll af völdum Co­vid-19 í Indónesíu eru orðin meiri en 71 þúsund.

Tvær konur bíða eftir á­fyllingu á súr­efnistanka í Jakarta, höfuð­borg Indónesíu, í síðasta mánuði.
Fréttablaðið/EPA

Þar sem bólu­setningar ganga hraðar fylgjast heil­brigðis­yfir­völd náið með á­hrifum þeirra á fjölda til­fella og á­lags á heil­brigðis­kerfið. Á Spáni og í Bret­landi hefur fjölda smita tekið að fækka eftir að hafa náð hæstu hæðum af völdum Delta. Fjöldi smita meðal bólu­settra og dreifing þeirra er eitt­hvað sem lítið er vitað um enn sem komið er. Bólu­efni virka þó afar vel gegn því að hindra al­var­leg veikindi.

Við þurfum að átta okkur á því að þessi vírus er nú land­lægur

„Við þurfum að horfast í augu við það að þessi vírus er nú land­lægur og við þurfum að hugsa um lang­­tíma­á­ætlanir til að takast á við þetta á heims­vísu,“ segir Robert West, prófessor emi­­ritus við Uni­versity College London, sem ráð­­leggur breskum stjórn­völdum vegna far­aldursins.

„Það er nú ó­um­flýjan­legt að við stöndum frammi fyrir þúsundum, jafn vel tugum þúsunda, dauðs­falla á ári vegna þessarar veiru í fyrir­sjáan­legri fram­tíð, á sama hátt og við sjáum dauðs­föll af öðrum or­sökum.“

Her­maður bólu­settur með bólu­efni AstraZene­ca í Taí­landi í júlí.
Fréttablaðið/EPA