„Við erum búin að vera hér í 8 tíma. Við fáum engar upplýsingar,“ segir Björn Leó Brynjarsson sem fastur er ásamt 200 manna hópi Íslendinga á flugvellinum á Tenerife. Í hópnum er aðallega fjölskyldufólk og fjöldi barna þar á meðal. „Við fengum 14 evrur á mann fyrir kaffi og mat. Það er enginn sem veit neitt,“ segir Björn Leó.

„Við fórum inn í vél og vorum þar í klukkutíma og vorum svo send aftur inn. Það er ekki búið að segja orð við okkur allan þennan tíma,“ segir hann. „Það væri allt í lagi að fara bara upp á hótel, en okkur hefur verið haldið mjög lengi hérna með engar upplýsingar.“

Óvissa varðandi nóttina

Björn Leó segir að nú liggi fyrir nýtt flug í fyrramálið. Þó hafi engar frekari upplýsingar borist og hópurinn sé því í óvissu varðandi nóttina. „Mér skilst að flugfélagið eigi að sjá um að finna gistingu en ennþá hefur ekkert komið um það. Farangurinn okkar er síðan einhversstaðar. Ég veit ekki hvernig við fáum hann.“

Björn Leó er búinn að dvelja á eyjunni í tvær vikur, ásamt bræðrum sínum og unnustu bróður síns. „Við vorum hérna með foreldrum okkar en þau ákváðu að vera lengur. Við ákváðum að fara heim og lentum þannig í þessari glimrandi upplifun.“

Hvað sóttvarnir á flugvellinum varðar segir hann þær ekki upp á marga fiska. „Fólk er með grímur á flugvellinum, en annars er þetta frekar mikið kaos.“ Hann segir aðstæðurnar gríðarlega óþægilegar.

Uppfært 17:10

Hópurinn er nú kominn í rútu á leið í gistiúrræði fyrir nóttina. Hópurinn veit ekki hvert verður farið eða hvort að hópnum verði skipt upp.

Mynd/Aðsend

Uppfært 20:09

Íslenski hópurinn er kominn á fjögurra og hálfrar stjörnu hótelið San Costa Adeje, þar sem dvalið verður til morguns.

Mynd/Tripadvisor