Tvö krapaflóð hafa fallið á Austfjörðum í dag. Fyrir stuttu féll eitt á Hringveg 1 á sunnanverðum Fáskrúðsfirði. Samkvæmt tilkynningu lögreglu lokaði það veginum en hann hefur nú verið opnaður aftur.
Skriðu- og ofanflóðasérfræðingar Veðurstofunnar funda nú um stöðuna á Austfjörðum en i gær var lýst yfir óvissustigi á Austurlandi. Í tilkynningu almannavarna í morgun kom fram að veðurspá liti betur út fyrir Seyðisfjörð en hún gerði í gær en þó væri vel fylgst með.
Mesta úrkoman hefur verið á Fáskrúðsfirði og var um 25 millílítrar í nótt og 20 millílítrar á Eskifirði og í Neskaupstað en um 17 millílítrar á Seyðisfirði.
Á öllum stöðum eru snjóathugunarmenn að störfum. Fylgst er með gögnum úr GPS mælum, talstöð og vatnshæðarmælum á Seyðisfirði ásamt veður og snjómælum.
Austurland: Hálka eða hálkublettir á vegum, ófært á Vatnsskarði eystra og lokað yfir Fjarðarheiði. Þjóðvegur 1 í Fáskrúðsfirði er lokaður tímabundið vegna krapaflóðs en unnið er að hreinsun. #færðin
— Vegagerðin | Iceland Roads (@Vegagerdin) February 14, 2021
Í tilkynningu lögreglunnar á Austurlandi sem birt var síðdegis í dag kemur fram að gert sé ráð fyrir áframhaldandi úrkomu fram á nótt en að ekki sé talin þörf á frekari aðgerðum.
Stöðuna átti þó að endurmeta á fundi ofanflóðavaktar sem hófst klukkan 18.
Austurland: Óbreytt staða – sérfræðingar ofnaflóðavaktar endurmeta stöðuna aftur kl. 18:00 Tilkynning frá...
Posted by Lögreglan á Austurlandi on Sunday, 14 February 2021