Tveir ein­staklingar reyndust smitaðir af Co­vid-19 veirunni á Stykkis­hólmi eftir skimun í gær og voru þeir báðir í sótt­kví við greiningu. Alls fóru 42 í skimun í Stykkis­hólmi í gær og eru nú alls níu manns í ein­angrun í bænum.

Hóp­smit kom upp í Stykkis­hólmi fyrr í vikunni þegar sjö greindust með veiruna. Allir ein­staklingar sem hafa greinst með veiruna í bænum höfðu um­gengist sama hóp af fólki.

„Gripið var til ráð­stafanna fyrr í vikunni, vegna þeirrar ó­vissu sem upp var komin á meðan verið var að afla nánari upp­lýsinga um um­fang smita hér í sam­fé­laginu,“ segir á vef Stykkis­hólms­bæjar. Við­brögðin hafi skilað góðum árangri að mati bæjar­yfir­valda og verður ekki gripið til frekari ráð­stafanna.

Þær var­úðar­ráð­stafanir sem gripið hefur verið til í stofnunum bæjarins eru enn í gildi, þar með talið hólfa­skipting í skóla­stofnunum og heim­sóknar­bann á dvalar­heimili aldraðra.

Í­búar eru hvattir til að fylgjast vel með til­kynningum frá skólum og öðrum stofnunum Stykkis­hólms­bæjar, sem og sótt­varnar­yfir­völdum.