Minnst á­tján manns létust þegar Rússar skutu flug­skeyti á í­búða­blokk í borginni Odesa í suður­hluta Úkraínu, þar á meðal voru tvö börn. Fjöldi annarra slasaðist í á­rásinni.

Skotið var á níu hæða í­búða­blokk sem hrundi í kjöl­farið, enn er leitað af eftir­lifandi ein­stak­lingum sem gætu hafa grafist í rústum blokkarinnar.

Að sögn Al Jazeera eru margir ein­staklingar í Úkraínu sem kjósa að halda sig fyrir í kjöllurum á í­búða­blokkum. „Þegar bygging hrynur þýðir það að fólkið inni­króast og björgunar­að­gerðir í morgun hafa snúist að því fólki,“ segir frétta­maður Al Jazeera sem staddur er í Úkraínu.

Mikil aukning hefur verið í flug­skeyta­á­rásum frá Rúss­landi síðustu tvær vikur, á mánu­daginn í þessari viku skutu Rússar til að mynda á vin­sæla verslunar­mið­stöð í borginni Kremenchuk í miðri Úkraínu, á­tján manns létust einnig í þeirri árás.

Yfir­völd í Úkraínu hafa sakað Rússa um að nota ó­ná­kvæmari flug­skeyti frá tíð Sovét­ríkjanna og því séu flug­skeytin að dynja á al­mennum borgurum. Þau segja að slíkt skeyti hafi verið notað í á­rásinni á verslunar­mið­stöðina.

Skráð dauðs­föll al­mennra borgara í Úkraínu í á­rásum Rússa frá því að inn­rás þeirra í Úkraínu hófst 24. febrúar nema tæp­lega fimm þúsund manns og þar á meðal eru 350 börn. Dauðs­föll al­mennra borgara eru þó talin vera tölu­vert hærri en það sem skráð hefur verið.