Minnst átján manns létust þegar Rússar skutu flugskeyti á íbúðablokk í borginni Odesa í suðurhluta Úkraínu, þar á meðal voru tvö börn. Fjöldi annarra slasaðist í árásinni.
Skotið var á níu hæða íbúðablokk sem hrundi í kjölfarið, enn er leitað af eftirlifandi einstaklingum sem gætu hafa grafist í rústum blokkarinnar.
Að sögn Al Jazeera eru margir einstaklingar í Úkraínu sem kjósa að halda sig fyrir í kjöllurum á íbúðablokkum. „Þegar bygging hrynur þýðir það að fólkið innikróast og björgunaraðgerðir í morgun hafa snúist að því fólki,“ segir fréttamaður Al Jazeera sem staddur er í Úkraínu.
Mikil aukning hefur verið í flugskeytaárásum frá Rússlandi síðustu tvær vikur, á mánudaginn í þessari viku skutu Rússar til að mynda á vinsæla verslunarmiðstöð í borginni Kremenchuk í miðri Úkraínu, átján manns létust einnig í þeirri árás.
Yfirvöld í Úkraínu hafa sakað Rússa um að nota ónákvæmari flugskeyti frá tíð Sovétríkjanna og því séu flugskeytin að dynja á almennum borgurum. Þau segja að slíkt skeyti hafi verið notað í árásinni á verslunarmiðstöðina.
Skráð dauðsföll almennra borgara í Úkraínu í árásum Rússa frá því að innrás þeirra í Úkraínu hófst 24. febrúar nema tæplega fimm þúsund manns og þar á meðal eru 350 börn. Dauðsföll almennra borgara eru þó talin vera töluvert hærri en það sem skráð hefur verið.