Í gær greindust 25 manns með veiruna innanlands í gær en af þeim sem greindust voru 23 með einkenni en tveir greindust við sóttkvíar- og handahófsskimun. Þetta kemur fram á covid.is.

Smitum fækkar þannig milli daga en í fyrradag greindust 37 með veiruna.

Af þeim sem greindust voru 15 fullbólusettir en níu óbólusettir. Bólusetning var hafin hjá einum. Þrettán voru utan sóttkvíar við greiningu, eða rétt rúmlega helmingur.

Í heildina eru nú 354 í einangrun en þeim fjölgar örlítið milli daga. Þá eru 765 í sóttkví en þeim fjölgar um rúmlega 130 milli daga.

Á landamærunum greindist einn einstaklingur með virkt smit og var sá einstaklingur fullbólusettur. Ríflega 870 sýni voru tekin á landamærunum í gær og eru nú 326 í skimunarsóttkví. Tæplega 1.700 sýni voru tekin í heildina innanlands í gær.

Inni­liggjandi sjúk­lingum á Land­spítala fjölgar á milli daga en í dag eru níu sjúk­lingar inni­liggjandi á spítalanum vegna Co­vid-19 að því er kemur fram í til­kynningu á vef Land­spítala.

Greint var frá því í gær að tveggja ára barn væri inni­liggjandi á gjör­gæslu í öndunar­vél. Var barnið annað tveggja sjúk­linga á gjör­gæslu en hinn sjúk­lingurinn var einnig í öndunar­vél. Þá var unglingsdrengur lagður inn á bráðalegudeild í vikunni.

Hjá Co­vid-göngu­deildinni eru nú 352 sjúk­lingar í eftir­liti og þar af eru 117 börn. Einn er metinn rauður en ellefu gulir og þurfa því nánara eftir­lit.

Sam­kvæmt upp­lýsingum á co­vid.is frá því í gær eru sjö börn undir eins árs aldri í ein­angrun með Co­vid, 22 á aldrinum eins til fimm ára, 71 á aldrinum sex til tólf ára, og sextán á aldrinum þrettán til sau­tján ára.

Fréttin hefur verið uppfærð.