„Í dag eru liðin tvö ár frá besta degi lífs míns og okkar fjölskyldunnar, þegar börnin mín og ég björguðumst úr snjóflóði á Flateyri,“ svona hefst færsla Önnu Sigríðar Sigurðardóttur á Facebook.

Aðfaranótt miðvikudagsins 15. janúar 2020, féllu snjóflóð á Flateyri.

Fréttablaðið greindi frá því að röð atburða hafi orðið til þess að ekki fór verr fyrir unglingsstúlku sem var grafin í snjó á heimili sínu í fjörutíu mínútur eftir að síðara snjóflóðið féll. Unglingsstúlkan heitir Alma og er elsta dóttir Önnu Sigríðar.

Í samtali við Fréttablaðið í dag, segist Anna Sigríður reyna líta á daginn sem gleðidag í stað þess að líða illa yfir því sem gerðist. Hún einblíni á að gleðjast yfir því hversu vel fór.

Dúnsæng bjargaði henni

Alma lá í rúmi sínu þegar snjóflóðið féll, til allrar hamingju var hún með dúnsæng utan um sig sem bjargaði lífi hennar.

Anna Sigríður segist ævinlega þakklát öllum þeim sem komu að björgun fjölskyldunnar og öllum þeim stuðningi sem þau fengu í kjölfarið. Það var björgunarsveitin Sæbjörg sem kom Ölmu til bjargar.

„Það er sko margt að þakka fyrir og lífið er svo sannarlega gjöf,“ segir Anna Sigríður jafnframt í Facebook-færslu sinni.

Alma dóttir Önnur Sigríðar, stendur fyrir framan gamla herbergið sitt. Fyrir framan má sjá forstofuna.
Mynd/Aðsend

Mikið mildi að ekki fór verr

Anna Sigríður var heima hjá sér á Flateyri ásamt börnum sínum þremur þegar snjóflóðið féll.

Níu ára sonur Önnu, gerði Neyðarlínunni viðvart, „hann var fyrstur til að láta vita að flóð hefði fallið á efri byggðina en allir voru þá með hugann við flóðið sem rétt áður hafði fallið á höfnina,“ sagði Anna Sigríður í helgarviðtali Fréttablaðsins í desember 2020, rúmu ári eftir snjóflóðið.

Miklar skemmdir urðu á húsinu eins og sjá má á myndinni.
Mynd/Aðsend

Björgunarsveitin fljót á vettvang

Björgunarsveitarmenn voru þegar undirbúnir vegna fyrra flóðsins á Flateyri og gátu því farið strax á vettvang og hafið björgunaraðgerðir örfáum mínútum eftir að seinna flóðið féll.

Hefði Anna Sigríður staðið einum metra frá þeim stað sem hún var hefði hún sennilega farið út um gluggann með snjónum, sem fór í gegnum stofuna og út um gluggann á framhliðinni.

Til allrar lukku stóð Anna Sigríður við burðarbita sem bjargaði henni meðan snjórinn flæddi inn báðum megin við hana. Veggur fór í einu herbergi og forstofan fylltist af snjó.

Hafa unnið vel úr áfallinu

Anna Sigríður, er nú búsett í Hafnarfirði, ásamt fjölskyldu sinni. Hún segir að vel hafi gengið að vinna úr áfallinu eftir að hún sótti sér aðstoðar og tók veikindaleyfi.

Að sögn Önnur Sigríðar, hefur Alma, ekki fengið neitt áfall eftir að atburðurinn átti sér stað og að henni líði vel. Jarðskjálftarnir sem gengu yfir síðasta vetur, hafi þó örlítið tekið hana úr jafnvægi fyrst um sinn.

„Hún var að vinna á Flateyri í sumar og er alveg búin að fara alveg nokkrum sinnum þangað síðan. Þannig þetta situr ekkert í henni þannig,“ segir Anna Sigríður um Ölmu dóttur sína.

Anna Sigríður segir alla fjölskyldumeðlimi á góðum stað í dag. Yngsta dóttirin geti þó verið svolítið veðurhrædd eftir þetta allt og í lægðunum sem hafa gengið yfir upp á síðkastið eigi hún það til að hrökkva til.

Anna Sigríður ítrekar þakklæti sitt til þeirra sem komu þeim til bjargar og segir björgunarsveitina Sæbjörg hafa bjargað lífi Ölmu.