Lögreglumenn í flugstöðvardeildinni á Keflavíkurflugvelli handtóku nýverið karlmann sem hafði framvísað stolnu vegabréfi í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Hann var að reyna að innrita sig í flug til Toronto þegar grunur vaknaði um að ekki væri allt með felldu varðandi vegabréfið. Maðurinn reiddist mjög vegna afskiptanna og öskraði hótanir að lögreglumönnum og starfsfólki á innritunarborði með ógnandi hætti, að því sem fram kemur í fréttapósti frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum.

Í viðræðum við lögreglu viðurkenndi maðurinn að hann væri að reyna ferðast á stolnu vegabréfi. Kvaðst hann hafa keypt það í Hollandi á 500 evrur. Hann var því handtekinn og fluttur á lögreglustöð. Þetta er í annað skiptið sem lögregla hefur afskipti af manninum þar sem hann hefur verið stöðvaður með skilríki annars manns. Málið er í hefðbundnu ferli. 

Þá hefur tveimur flugvélum verið lent á Keflavíkurflugvelli á undanförnum dögum vegna veikinda farþega. Önnur vélin var á Chicago til Varsjár þegar farþeginn veiktist. Þegar nánari skoðun hafði verið gerð á honum eftir lendingu hér var ákveðið að hann gæti haldið för sinni áfram.

Hin vélin var á leiðinni Montreal til Chicago og þaðan til Islanbul þegar kona um borð kenndi sér meins og var hún flutt með sjúkrabifreið á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.