Rupert Young, tví­bura­bróðir breska söngvarans og fyrstu Idol­stjörnunnar, Will Young, er látinn 41 ára að aldri. Það er BBC sem greinir frá þessu.

Tals­maður söngvarans stað­festir and­lát bróðursins í sam­tali við breska ríkis­út­varpið en óskar þess að breskir fjöl­miðlar virði einka­líf fjöl­skyldunnar.

Söngvarinn hefur áður tjáð sig um geð­heil­brigði bróður síns og bar­áttu við alkó­hól­isma. „Það er mjög erfitt að eiga fjöl­skyldu­með­lim sem er fíkill,“ er haft eftir Young úr gömlu við­tali frá 2008.

Fram kemur í frétt BBC að Rupert hafi látið sig geð­heil­brigðis­mál varða og meðal annars stofnað sjóð til að­stoðar þeirra sem kljást við vanda­mál vegna geð­heil­brigðis sín.

Árið 2008 opnaði Rupert sig meðal annars um hugsanir sínar um frægð tví­bura­bróður síns. Hann hafi séð bróður sinn syngja í morgun­sjón­varpi, morguninn eftir að hafa skaðað sjálfan sig eftir mikla drykkju, að því er segir í frétt BBC.

„Það virtist svo furðu­legt fyrir mér að tvær mann­eskjur sem eru með sömu gen gætu hagað sér á svo mis­munandi máta,“ skrifaði Rupert.