Björgunarsveitir á Vestfjörðum voru kallaðar út á sjöunda tímanum í kvöld vegna tveggja strandaglópa á Hrafnseyrarheiði. Þeir komast ekki leiðar sinnar vegna snjóflóða. Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörg er um að ræða tvo aðila sem eru á einum bíl. Fólkið óskaði eftir aðstoð eftir að þau urðu innlyksa á veginum eftir að flóð féll á veginn.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir í samtali við Fréttablaðið að hópur frá Þingeyri sé að fikra sig í áttina að fólkinu.

„Fyrsti hópurinn sem er kominn af stað er ekkert að bruna til þeirra eftir veginum,“ segir Davíð.

Fram kom í tilkynningu að nákvæm staðsetning bílsins sé ekki þekkt en að björgunarfólks sé á leiðinni á staðinn. Enn er þó nokkur hætta á snjóflóðum og því er varasamt að fara um veginn. Að sögn Davíðs gætir björgunarsveitarfólkið fyllsta öryggis og fer hægt um veginn.

Hann segir að enn sé einhver hætta á að fleiri snjóflóð falli en taldi ekki að fólkið væri í lífshættu þar sem það er núna í bíl sínum. 

Hann segir að enn sé einhver hætta á að fleiri snjóflóð falli en taldi ekki að fólkið væri í lífshættu þar sem það er núna í bíl sínum. Það væri þó stefnt að því að ná þeim af svæðinu sem fyrst.

„Þau virðast allavega ekki vera í flóðinu en það er varhugavert að vera nærri þar sem flóð hefur fallið, því það eru alltaf einhverjar líkur á því að það falli annað flóð,“ segir Davíð.