Þegar Tom Cotter rambaði inn í yfirgefinn bílskúr látins frænda síns í N-Karolínu fyrir um tveimur mánuðum síðan átti hann ekki von á því að finna þar dýrmæta en yfirgefna bíla eins og Ferrari 275 GTB frá 1967 og Shelby 427 Cobra af sömu árgerð. Þessi bílskúr hafði reyndar ekki verið opnaður í meira en 26 ár og þar inni var fátt annað en skordýr og reyndar svo til ómetanlegir dýrgripir í formi gamalla sportbíla af eftirsóttustu gerð. Þessir tveir bílar voru seldir á Gooding & Company Amelia Island bílauppboðinu um daginn og fékkst fyrir þá tæpur hálfur milljarður króna. 

Ferrari bíllinn fór á 3,24 milljónir dollara og Shelby 427 Cobran fór á 1,35 milljónir dollara. Voru báðir bílarnir seldir í því ástandi sem þeir fundust í. Ferrari 275 GTB er með 12 strokka vél, er að mestu úr áli og aðeins voru framleidd nokkur eintök af þessum bíl. Bílnum hafði aðeins verið ekið ríflega 13.000 mílur. Í bílskúrnum yfirgefna voru margir aðrir gamlir bílar eins og til dæmis 1976 árgerðin af Triumph TR-6 sem ekinn er 9.000 mílur og 1978 árgerðin af Morgan Plus 8 með aðeins 3.000 mílur á mælinum. Þeirra bíður líklega einnig að fara á uppboð, en fyrst var byrjað á að bjóða upp verðmætustu gripina.