Lögregla fékk í dag neyðarboð frá Strætóbílstjóra vegna þess að tveir farþegar veittust að honum, en annar þeirra á að hafa ógnað honum með hníf.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þar segir að ekki sé vitað hvort ökumanninum hafi orðið meint af árásinni. Þá kemur fram að málið sé í rannsókn.

Einnig er greint frá tilkynningu sem lögregla fékk um yfirstandandi innbrot. Þegar lögregluþjónar komu á vettvang reyndist sá sem var að fremja verknaðinn vera ofurölvi og áttavilltur. Lögregla hafi því ekið honum heim til sín.

Þá var lögreglu tilkynnt um ógnandi mann, sem reyndist vera grunaður um þjófnað í öðru máli sem átti sér stað fyrr um daginn. Eitthvað af þýfinu fannst á manninum, en ekki allt. Hann var vistaður í fangageymslu vegna málsins.