Kristján Örn Elías­son og Magnús Ing­berg Jóns­son bættust í dag í hóp þeirra manna sem vilja verða for­seti Ís­lands árin 2020 til 2024. Þetta má sjá á vef Þjóð­skrár þar sem nú fara fram raf­rænar undir­skriftar­safnanir fram­bjóð­enda.

Þeir bætast því í hópinn með Guðna Th. Jóhannes­syni, sitjandi for­seta, Guð­mundi Frank­lín Jóns­syni, Axel Pétri Axels­syni og Arn­grími Frið­rik Pálma­syni en allir hafa þeir til­kynnt fram­boð. Guðni Th. er eini þeirra sem þegar hefur safnað nægum undir­skriftum en 1500 er lág­marks­fjöldinn og 3000 há­marks­fjöldi. Engar konur hafa tilkynnt framboð, enn sem komið er.

Ekki ný­græðingur í fram­boði

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Magnús Ing­berg býður sig fram til for­seta en hann bauð sig einnig fram árið 2016. Frétta­blaðið náði ekki tali af Magnúsi vegna fram­boðsins í kvöld.

Árið 2016 var Magnús bú­settur á Sel­fossi og sagðist hann sem for­seti ætla að leggja á­herslu á að landið verði ekki stjórn­laust vegna pólitískra á­taka, sem að hans sögn ganga út á að rífast inn­byrðis um sér­hags­muni og frama, í stað sam­vinnu að bættum hag Ís­lendinga.

Þá sagðist Magnús vera and­vígur inn­göngu í ESB, en tók fram í það skiptið að hann vilji virða skoðun þjóðarinnar væri hún ekki sú sama og hans. Þá vill hann bæta heil­brigðis­þjónustu úti á landi og standa vörð um sjúkra­flug og bættar sam­göngur.

Magnús dró framboð sitt til baka það árið þegar 300 undirskriftir vantaði á lista hjá honum. Hann sagðist í samtali við ríkisútvarpið það árið vera ósáttur við að hafa ekki fengið frest til að afla sér vottorðs í Hafnarfirði og taldi kjörstjórnir hafa brotið á sér í þrígang.

Segist hafa byrjað of seint

Kristján Örn Elías­son segist í sam­tali við Frétta­blaðið lík­lega hafist handa of seint við söfnun undir­skrifta. Hann segist hafa skráð sig í dag en segir það verða at­hyglis­vert að sjá hver stuðningurinn verður þegar undir­skriftirnar eru raf­rænar eins og nú.

„Það er eigin­lega aðal­lega ó­á­nægja með stjórn­sýsluna og fram­kvæmdar­valdið,“ segir Kristján þegar hann er spurður um það hvers vegna hann bjóði sig fram. „Mér finnst bara svo mikil spilling og ég vil leggja á­herslu á það.“

Með leit á Goog­le má sjá í frétt á vef DV að Kristján sneri niður öryggis­vörð í Lands­bankanum á Austur­stræti árið 2017. „Það er ég, það passar,“ segir Kristján spurður út í málið. „Það er mál sem varðar sam­skiptin við Lands­bankann og á­kveðna vald­níðslu sem kemur fram í fréttum um sýslu­manninn á Snæ­fells­nesi og sam­skiptin við Lands­bankann,“ segir Kristján og segir málið nú í ferli fyrir Lands­rétti.

Spurður út í það hvort vænta megi kynningar­efnis frá honum segir Kristján að hann ætli að sjá til hvernig muni ganga. Stuttur tími sé til stefnu.

„En það verður gaman að sjá hvað kemur út úr þessu. Ég býst við að ég muni aug­lýsa á Face­book og óska eftir með­mælendum og sjá hvernig tekið verður í þetta,“ segir hann. Spurður út í það hvort hann búist við vel­gengni segist hann ekki viss.

„Ég veit það ekki sko. Ég væri alveg bjart­sýnn ef ég hefði gert þetta fyrr. Þetta er stuttur tími, þeir loka fyrir þetta á mið­nætti á þriðju­daginn, svo eru ein­hverjir tveir dagar þar sem hægt er að skila skrif­legu. En þetta er ekki mikið í hverjum lands­fjórðungi, þannig að þetta er bara mæling á það hvað fólk vill, hvort það vilji breytingar.“

Hann segist hafa verið á­nægður með á­kvarðanir Ólafs Ragnars Gríms­sonar, fyrr­verandi for­seta, í em­bætti. „Maður var á­nægður þegar hann beitti 26. greininni og ég er ekki að sjá Guðna gera það til dæmis.“