Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, tilkynnti í kvöldfréttum Rúv að tveir þriðju hefðu greitt atkvæði með verkfallstillögu Eflingar í kosningu sem lauk í kvöld.

Yfirvofandi verkfall er þriðjudaginn sjöunda febrúar þegar um þrjú hundruð manns leggja niður störf á sjö hótelum Íslandshótela í Reykjavík.

Hefst vinnustöðvun að óbreyttu þriðjudaginn 7. febrúar.

Af 287 sem voru á kjörskrá voru 189 sem greiddu atkvæði að þessu sinni og var kjörsókn því 66 prósent. Af þeim voru sjö sem tóku ekki afstöðu.

Tæplega tveir þriðju greiddu atkvæði með verkfallstillögunni eða 65,61 prósent á meðan tæpur þriðjungur, 30,69 prósent greiddu atkvæði á móti tillögunni.

„Ég er ótrúlega glöð. Ég og félagar mínir í samninganefnd erum ótrúlega stolt, stolt af okkar vinnu og stolt af þeim félagsmönnum sem þarna gengu til atkvæða. Það tókst að rísa upp þrátt fyrir að hafa setið undir linnulausum kosningaáróðri, ólöglegum, frá Samtökum atvinnulífsins,“ kom fram í viðtalinu við Sólveigu.

Í tilkynningu frá samninganefnd Eflingar kemur fram að nefndin fagni Eflingarfélaga á Íslandshótelum, sem kusu með sjálfstæðum samnings- og verkfallsrétti sínum þrátt fyrir þvingunartilburði, þrýsting og hótanir frá öllum valdamestu stofnunum íslensks samfélags.