Tveir stórar skjálftar mældust á áttunda tímanum við suður enda Fagra­dals­fjalls í kvöld. Alls hafa 30 skjálftar mælst af stærð 3 eða stærri frá mið­nætti, þar af þrír yfir 4 að stærð, þeirra stærstur var 5.1 í nótt klukkan korter yfir þrjú.

„Þeir hafa verið á milli þrír og fjórir,“ segir Hulda Rós Helga­dóttir, náttúr­vá­sér­fræðingur hjá Veður­stofu Ís­lands spurð um stærðina á skjálftunum tveimur. Annar skjálftinn var sam­kvæmt stað­festum mælingum 3,6 að stærð.

Skjálftarnir finnast misvel í höfuðborginni

Skjálftarnir fundust vel á höfuð­borgar­svæðinu. Spurð um af hverju sumir skjálftar finnast betur á höfuð­borgar­svæðinu en aðrir segir Hulda Veður­stofuna furða sig á þessu líka.

„Við erum ein­mitt að furða okkur á því hvað maður finnur mis­vel fyrir þeim. Þetta fer örugg­lega eftir því hvar orku­út­lausnin og hreyfingin er í skjálftanum og hvert bylgjurnar fara,“ segir Hulda.

Frá mið­­nætti hafa nú mæst ríf­­lega 2100 skjálftar á Reykja­nesi og nú seinni partinn hefur virknin mest haldið sig í kringum syðsta enda Fagra­­dals­­­fjalls eða frá Geldinga­­dal að Nátt­haga. Þetta kemur frá Veður­­stofu Ís­lands.