Tveir stórir skjálftar urðu í Bárðar­bungu í gær­kvöldi. Sá fyrri mældist 3,0 að stærð og varð um tuttugu mínútur fyrir mið­nætti en sá seinni mældist 3,3 og varð rétt fyrir klukkan eitt í nótt.

Að­eins tveimur mínútum eftir seinni skjálftann mældist eftir­skjálfti af stærð 2,5 og loks mældist jafn stór skjálfti, 2,5 að stærð, klukkan um korter í þrjú í nótt.

Svæðið er mjög virkt skjálfta­svæði og verða þar reglu­lega skjálftar af þessari stærð. Sam­kvæmt veður­stofu Ís­lands er ekkert sem bendir til þess að gos sé væntan­legt á svæðinu á næstunni.

Síðast mældist skjálfti yfir 3,0 að stærð í Bárðar­bungu fyrir sléttum mánuði síðan, þann 14. júní, en alls hafa nú orðið tíu skjálftar á árinu sem hafa náð þeirri stærð.