Stór hópur starfsmanna á íbúðakjarna fyrir fatlað fólk í Reykjavík þarf að fara í sóttkví eftir að tveir starfsmenn greindust með COVID-19. Forsvarsfólk velferðarsviðs Reykjavíkurborgar greinir frá þessu í tilkynningu til fjölmiðla.

Starfsmennirnir tveir starfa náið með einstaklingum sem þurfa sólarhringsþjónustu í Breiðholti og Grafarvogi. Íbúar kjarnanna búa allir í eigin íbúðum og fá því alla þjónustu inn á sín heimili. Þá þurfa 26 starfsmenn að fara í sóttkví; sex starfsmenn úr kjarnanum í Grafarvogi og 20 í Breiðholti.

Gripið hefur verið til nauðsynlegra aðgerða í samstarfi við smitrakningarteymi Almannavarna og Embætti landlæknis, til að hefta frekara smit án þess að skerða þjónustu. Íbúar kjarnanna þurfa sólarhringsþjónustu. Hólmfríður Helga Sigurðardóttir, upplýsingafulltrúi velferðarsviðs, segir að tryggt verði að íbúar fái áfram þá þjónustu og stuðning sem þeir þurfa á að halda við sitt daglega líf.

Neyðarstjórn velferðarsviðs hélt samsráðsfund í morgun þar sem línur voru lagðar um næstu skref.

„Unnið er að því að manna vaktirnar með öðru starfsfólki velferðarsviðs. Báðir íbúarnir sem fengu þjónustu viðkomandi starfsmanna eru komnir í sóttkví. Þeir fara í sýnatöku í dag og fylgst verður náið með líðan þeirra,“ segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Tveir starfsmenn HÍ greindust í gær.
Fréttablaðið/Anton Brink

Tvö smit í HÍ

Einnig greindust tvö ný smit meðal starfsmanna Háskóla Íslands í gær en um er að ræða starfsmann í Aðalbyggingu háskólans og starfsmann með skrifstofu í Odda.

Þrjú smit greindust fyrr í vikunni í skólanum.

Smitrakningarteymi almannavarna hefur farið vandlega yfir stöðuna og hefur fólki í sóttkví fjölgað nokkuð vegna málsins.

Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, segir í tilkynningu til nemenda og starfsfólks að allir leggist nú á eitt til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu veirunnar.

„Eðlilega eru margir kvíðnir í ljósi stöðunnar og vil ég því ítreka hvatningu mína til ykkar að nýta gjaldfrjálsa sálfræðiþjónustu sem í boði er, bæði fyrir nemendur og starfsfólk. Ég ítreka sömuleiðs áherslu á persónubundnar smitvarnir og fylgni við reglur almannavarna. Verum heima ef minnstu einkenna verður vart. Hlöðum niður smitrakningarappi landlæknis, verum ábyrg og hugsum á eins jákvæðan hátt og okkur er kostur í þessari stöðu sem er einungis tímabundin.“