Tveir starfsmenn á fréttastofu RÚV eru komnir í sóttkví eftir að hafa umgengist einstakling sem greindist með COVID-19.

Að sögn útvarpsstjóra fengu stjórnendur upplýsingar um þetta í gær og er búið að greina öðru starfsfólki frá málinu.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins voru starfsmennirnir sendir í sóttkví í tengslum við mál þar sem gestkomandi einstaklingar í Vestmannaeyjum greindust með COVID-19.

Búið að skipta upp í sóttvarnahólf

„Við gripum til ráðstafana um leið og breytt fyrirkomulag tók gildi síðastliðinn föstudag, þannig að allt var í samræmi við okkar áætlanir og skipulag," segir Stefán Eiríksson útvarpsstjóri, í samtali við Fréttablaðið.

Meðal annars hafi verið búið að skipta fréttastofunni upp í sóttvarnarhólf líkt og gert var í vor. Stefán segir ekki útlit fyrir að tilfellið eigi eftir að hafa áhrif á starfsemi fréttastofunnar að svo stöddu.

„Þetta er allt í traustum og öruggum höndum öryggisnefndarinnar hér sem haldið hefur vel utan um þessi mál frá því að þessi heimsfaraldur skall á okkur.“