Tveir starfsmenn á Reykjalundi greindust í gær með COVID-19. Tíu starfsmenn á sólarhringsdeildinni Miðgarði eru nú ýmist í sóttkví eða einangrun og hefur aðgangur að deildinni verði takmarkaður.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjalundi en þar segir að enginn sjúklingur hafi smitast svo vitað sé. Þá hafi sjúklingar og aðstandendur verið upplýstir um stöðu mála.

Sextán sjúklingar dvelja á deildinni en búið var að aðskilja starfsemi Miðgarðs frá öðrum deildum áður en smitin komu upp.

Ætti ekki að fela í sér röskun á þjónustu

Að sögn Péturs Magnússonar, forstjóra Reykjalundar, ætti almenn starfsemi ekki að breytast vegna tilfellanna. Þó sé möguleiki að einhver minnkun verði á starfsemi meðferðarteyma sem gætu þurft færa til starfskrafta sína tímabundið til aðstoðar á Miðgarði.

„Um leið og grunur kom upp um mögulega sýkingu, sem og eftir að jákvætt sýni greindist, fóru í gang markvissir verkferlar um sóttvarnir og varnir gegn smitleiðum. Aðgerðirnar eru gerðar í nánu samráði við Smitrakningarteymi Almannavarna sem hefur í samstarfi við stjórnendur og starfsfólk Reykjalundar skipulagt starfsemi á Miðgarði í samræmi við ítrustu sóttvarnir og verkferla þar um, enda eru þar sjúklingar sem geta verið í áhættuhópum,“ segir í skeyti forstjórans.

Þá segist hann harma þau óþægindi sem þetta ástand og ráðstafanir því tengdu hafi í för með sér.

Fréttin hefur verið uppfærð.