Tveir spænskir blaðamenn, David Beriain og Roberto Fraile, sem unnu að gerð heimildamyndar um veiðiþjófnað voru myrtir af öfgamönnum í austurhluta Búrkína Fasó á mánudaginn. Auk þeirra féll írskur ríkisborgari í árásinni en nafn hans hefur ekki verið gefið út.
Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar, greindi frá nöfnum mannanna á Twitter í gærkvöldi.
Se confirma la peor de las noticias. Todo el cariño para los familiares y allegados de David Beriain y Roberto Fraile, asesinados en Burkina Faso. Y nuestro reconocimiento a quienes, como ellos, realizan a diario un periodismo valiente y esencial desde las zonas de conflicto.
— Pedro Sánchez (@sanchezcastejon) April 27, 2021
Mennirnir voru í bílalest á leið um þjóðgarð nálægt landamærum Búrkína Fasó við Benín þegar ráðist var á þá. Sex slösuðust í árásinni og einn hermaður er enn ófundinn.
Ekki er vitað hverjir stóðu að baki árásinni en öfgamenn, margir tengdir hryðjuverkasamtökunum ISIS og Al Qaeda, hafa undanfarið gert árásir á svæðinu og myrt saklausa borgara og hermenn. Hundruðum skóla hefur verið lokað á svæðinu vegna ástandsins sem farið hefur mjög versnandi undanfarin misseri.
Yfirvöld í Búrkína Fasó sendu frá sér yfirlýsingu í gær þar sem sagði að hryðjuverkamenn væru að sækja í sig veðrið í landinu. Árásarmenn á mótorhjólum hafa gert fjölda árása á þorp og neytt íbúa til að snúast til íslamstrúar og myrt saklausa borgara.