Tveir snarpir jarðskjálftar urðu með stuttu millibili nú skömmu eftir miðnætti. Sá fyrri varð við Trölladyngju, átta mínútur yfir tólf að miðnætti. Hann var 3,2 að stærð. Sá síðari varð 20 mínútum síðar við Keili. Hann var 3,5 að stærð og fannst á Reykjanesi, höfuðborgarsvæðinu og upp í Borgarnes.

Sjö skjálftar yfir 4 að stærð

Síðasta sólarhinginn hafa hátt á annað þúsund skjálfta mælst á Reykjanesskaga. Sjö þeirra voru yfir 4,0 að stærð. Sá stærsti reið yfir eina mínútu yfir sjö í kvöld og var 4,7 að stærð.

Mjög mikil skjálftavirkni hefur verið á Reykjanesskaga í kvöld. Klukkan 22.36 varð skjálfti af stærð 3,8 um einn kílómetra suðvestur af Keili. Það er á sama stað og skjálftar að stærð 4.0 og 4,7 urðu kl. 18:43 og 19:01. Upptök þessarra þriggja skjálfta eru á fimm til sjö kílómetra dýpi.

Ný spá um eldgos

Eldfjallafræði og náttúruvárhópur Háskóla Íslands birti í kvöld nýtt eldsuppkomumat, sem segir til um líklega staði eldgosa, komi til þess að það fari að gjósa. Myndin hefur aðeins breyst frá síðustu spá sem gerð var fyrir helgi.

Hér koma niðurstöður hraunhermilíkansins. Til að flýta fyrir reikningum látum við gjósa með 500 m millibili innan...

Posted by Eldfjallafræði og náttúruvárhópur Háskóla Íslands on Sunnudagur, 28. febrúar 2021

Áhugi landsmanna fyrir jarðskjálftafregnum er greinilega mikill eftir hrinuna í dag en vegna mikillar umferðar hrundi vefur Veðurstofa Íslands. Sama gerðist eftir fyrsta stóra skjálftann fyrir helgi. Vefurinn er nú aftur kominn í gagnið en í tilkynningu frá Veðurstofunnii kemur fram að óvíst sé hver orsök bilunarinnar hafi verið. Ekki lá fyrir hve margir heimsóttu vefinn þegar hann hætti að virka.